Skip to main content
7. september 2023

Hátt í 900 sækja ráðstefnu um heimilisofbeldi á vegum HÍ 

Hátt í 900 sækja ráðstefnu um heimilisofbeldi á vegum HÍ  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Um 850 þátttakendur eru skráðir á fimmtu evrópska ráðstefnuna um heimilisofbeldi (ECDV) sem fer fram í Reykjavík 11. – 13. september 2023 og færri komast að en vilja. Menntavísindasvið HÍ stendur að ráðstefnunni auk erlends forsvarsfólks hennar en Guðrún Kristinsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið HÍ, er annar aðalskipuleggjenda.  

Þema ráðstefnunnar er heimilisofbeldi og óvissa, (e. Domestic Violence and Precarity) þar sem fengist verður við ofbeldi í nánum samböndum, innan veggja heimilis og á vinnustöðum. Fjallað er um fjölmörg og ólík efni í 117 málstofum, 518 erindum, 21 vinnustofum og á 62 veggspjöldum.  

Kynntar verða margvíslegar rannsóknir og jafnframt fjallað um hagnýt úrræði fagaðila og grasrótarsamtaka. Þar verður rýnt í ofbeldi og misnotkun á fjölbreyttan hátt, fjallað um ólík form þess, m.a. ofbeldi í nánum samböndum, eltihrellun, heiðurstengt ofbeldi, ofbeldi gegn börnum og öldruðum, málefni heilbrigðisþjónustu og réttarkerfis, flóttafólks, samkynhneigðra og hælisleitenda. 

COVID og Úkraínustríðið ýtir undir ofbeldi og óvissu 

Guðrún Kristinsdóttir bendir á að ofbeldi sé; alþjóðlegur, félagslegur og heilsufarslegur vandi sem finna megi hvort sem er í  nánum samböndum, á vinnustöðum eða almannafæri. „Ofbeldi í nánum samböndum varð mun sýnilegra á COVID-19 tímum, eins og gerst hefur þegar kreppir að, og það skapaði nýjar samfélagslegar áskoranir. Sú kynbundna mismunun sem áður var fyrir hendi breikkaði en um leið tóku konur  virkan og afgerandi þátt í að kljást við farsóttina. Auk þessa hefur nýleg pólítísk og hugmyndafræðileg kreppa vegna stríðsins í Úkraínu ýtt undir óvissu og óstöðugleika. Fyrir vikið varð þemað “Precarity”, sem þýða má sem óvissa eða berskjöldun, fyrir valinu og vísar til þess óöryggis sem nú ríkir, bæði vegna stríðsógna og alvarlegra umhverfisáhrifa sem nú gætir æ meir,“ segir Guðrún um þema ráðstefnunnar. 

Hún bendir á að sum málefni, sem til umfjöllunar verða, beri hátt í umræðu dagsins. „Sem dæmi má nefna fjölbreyttar rannsóknir breska félagsfræðingsins Catherine Donovan. Fyrirlestur hennar á ráðstefnunni nefnist Bringing Minorities into the Mainstream: Contributions of feminist research into domestic abuse in the relationships of LGB and/or T+ people to field. Hún er frumkvöðull í athugunum á fjölskyldulífi samkynhneigðs fólks sem hún hefur stundað í rúm 20 ár. Nú er Donovan til dæmis að rannsaka ofbeldi meðal transfólks og því óháð einnig hatursglæpi,“ bendir Guðrún á.  

„Með því að halda ECDV-ráðstefnuna hér á landi, leggjum við okkar lóð á vogarskálar þess að efla rannsóknir, benda á lausnir og þróa málaflokkinn á hagnýtan hátt,“ segir Guðrún Kristinsdóttir, prófessor emerita við Menntavísindasvið HÍ.

Hefur yfirgripsmikla reynslu af rannsóknum á heimilisofbeldi

Sjálf hefur Guðrún fengist við rannsóknir tengdar málefnum barna, unglinga og fjölskyldna í tæp 40 ár. Áherslur hennar hafa m.a. verið á sviði barnaverndar, bernskufræða, gagnrýninnar kynjafræði og ofbeldis gegn börnum og fjölskyldum í nánum samböndum. Á árunum 2005–2014 leiddi hún umfangsmikla rannsókn á almennri þekkingu barna á ofbeldi á heimilum og á reynslu barna af slíku ofbeldi og kynferðisofbeldi gagnvart þeim og mæðrum þeirra. Niðurstöður þeirrar rannsóknar birtust í bókinni Ofbeldi á heimili. Með augum barna. Í kjölfarið skrifaði hún ásamt Nönnu Kr. Christiansen bókina Ofbeldi gegn börnum, Hlutverk skóla

Nú síðast hefur Guðrún ásamt Jóni Ingvari Kjaran, prófessor á Menntavísindasviði HÍ, rannsakað hvernig karlar sem beitt hafa konur sínar ofbeldi sækja sér meðferð, lýsa athæfi sínu, takast á við að játa eða útskýra ofbeldið og finna leiðir til betra lífs.  

Ráðstefnan gefur færi á að þróa ofbeldisforvarnir hér á landi 

Guðrún segir mikilvægt að halda ráðstefnuna á Íslandi. „Hér á landi  sinna margir aðilar, félagasamtök, ríki og sveitarfélög ofbeldismálum af þeirri alúð sem fjármagn og bjargir leyfa. Ráðstefna á heimavelli veitir þessu fólki tækifæri til að hitta aðra sem annars hefði ekki verið. Því miður eru vísbendingar um að ýmsa aðstoð þyrfti að auka, ekki síst meðal kvenna af erlendum uppruna, þar þarf að gæta meira að mannréttindum og auka þjálfun starfsfólks. Með því að halda ECDV-ráðstefnuna hér á landi, leggjum við okkar lóð á vogarskálar þess að efla rannsóknir, benda á lausnir og þróa málaflokkinn á hagnýtan hátt,“ segir Guðrún.  

Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar koma frá Kýpur, Þýskalandi, Íslandi, Litháen, Svíþjóð og Bretlandi en auk Evrópubúa tekur fólk frá Kanada, Bandaríkjunum, Ástralíu og víðar þátt í ráðstefnunni. „Ráðstefnuna sækir fræða- og starfsfólk í mennta-, félags- og heilbrigðisþjónustu og úr réttarkerfinu. Hún er þverfagleg og tekur á ofbeldi í víðum skilningi. Þetta tengist því að nú er mikið er kallað eftir samhæfingu, t.d. skóla- og félagsþjónustu, sem sést í starfi Bjarkarhlíðar og annarra miðstöðva eða í samstarfi lögreglu við hópa sem eiga að tryggja velferð alls fólks. Á Menntavísindasviði HÍ hefur hópur fræðafólks, kennara, doktorsnema og meistaranema unnið að rannsóknum tengdum ofbeldi um talsvert skeið með styrkjum frá RANNÍS og Jafnréttissjóði,“ bendir Guðrún á.

Ráðstefnan er styrkt af forsætisráðuneytinu og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra flytur opnunarerindi hennar þann 11. september.   

Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna má finna á vef hennar

""