Hátíðarstemning í veislu diplómanema í Stakkahlíð
Sannkölluð hátíðarstemning var ríkjandi í Stakkahlíð þann 6. maí síðastliðinn en þá var slegið upp mikilli veislu fyrir þá sem stundað hafa starfstengt diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun og velunnara námsins. Fjöldi fólks lagði leið sína í veisluna sem var í alla staði hin veglegasta. Ýmis skemmtiatriði voru í boði og tónlistarmaðurinn Jón Jónsson tók nokkur lög.
Námið hefur verið starfrækt við Menntavísindasvið Háskóla Íslands frá árinu 2007 og er það fyrsta námið sem boðið hefur verið upp á í háskóla fyrir fólk með þroskahömlun hér á landi. Meginmarkmið námsins eru annars vegar að undirbúa nemendur til starfa á afmörkuðum starfsvettvangi og hins vegar að gera nemendum kleift að öðlast hagnýta þekkingu og félagslega færni í því skyni að auka þátttöku þeirra í samfélaginu. Fjórir nemendahópar hafa útskrifast úr náminu eða alls 71 nemandi. Fimmti hópurinn stundar nú nám í skólanum og í honum eru fjórtán nemendur sem áætlað er að útskrifist vorið 2017.
Starfstengda diplómanámið hefur verið mikil lyftistöng fyrir fólk með þroskahömlun og mikilvægt skref í réttindabaráttu fatlaðs fólks. Námið miðar að því að veita nemendum möguleika á fullgildri þátttöku í samfélaginu með því að gefa þeim tækifæri til náms í háskóla. Námið hefur jafnframt hlotið viðurkenningar, m.a. Múrbrjót Landssamtaka Þroskahjálpar og hvatningarverðlaun Öryrkjabandalags Íslands.