Háskólinn stuðlar að jöfnum tækifærum til skiptináms og starfsþjálfunar
Háskóli Íslands hlaut á dögunum viðurkenningu frá Landskrifstofu Erasmus+ fyrir að stuðla að jöfnum tækifærum og efla þátttöku háskólanema með fötlun í skiptinámi og starfsþjálfun erlendis.
Háskóli Íslands hefur tekið virkan þátt í Erasmus menntaáætlun ESB frá árinu 1992 og leggur áherslu á að tækifærin sem áætlunin býður upp á séu opin og aðgengileg öllum nemendum og starfsfólki skólans. Sérstök áhersla hefur verið lögð á að kynna Erasmus+ viðbótarstyrki til að mæta aukalegum kostnaði vegna fötlunar eða heilsufars. Alls hafa fjórir nemendur með fötlun hlotið slíka styrki fyrir skiptinámi eða starfsþjálfun erlendis sem metið hefur verið inn í námið við Háskóla Íslands.
Jón Atli Benediktsson, rektor og Friðrika Harðardóttir, forstöðumaður Skrifstofu alþjóðasamskipta, tóku við viðurkenningunni að lokinni formlegri dagskrá ráðstefnu um jöfn tækifæri í Erasmus+ sem fór fram föstudaginn 11.október í Menntaskólanum í Kópavogi. Veittir voru viðurkenningargripir frá handverkstæðinu Ásgarði í Mosfellsbæ.
Rannís hefur unnið myndband um hvernig Háskóli Íslands hefur lagt sitt af mörkum til jafnra tækifæra til skiptináms og starfsþjálfunar.
Erasmusdagar eru haldnir árlega víða um Evrópu til að vekja athygli á öllum þeim góðu verkefnum og starfi sem er styrkt af Erasmus+, styrkjaáætlun ESB fyrir mennta-, æskulýðs- og íþróttamál. Íslenski viðburðurinn var að þessu sinni helgaður málefnum þeirra hópa sem hafa færri tækifæri og vakin athygli á því markmiði Erasmus+ að efla þátttöku þeirra í tækifærum erlendis og í samfélaginu í heild. Sjá nánar í frétt á vef Erasmus+