Skip to main content
14. október 2021

Háskólinn á þremur nýjum listum Times Higher Education

Háskólinn á þremur nýjum listum Times Higher Education - á vefsíðu Háskóla Íslands

Háskóli Íslands er í hópi 300 bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda, í sæti 301-400 á sviði menntavísinda og í 501.-600. sæti á sviði viðskiptafræði og hagfræði. Þetta sýna nýir listar tímaritsins Times Higher Education sem birtir voru í gær. Alls hefur Háskólinn verið á átta listum tímaritsins sem taka til afmarkaðra fræðasviða í haust. 

Mat Times Higher Education á bestu háskólum heims innan ákveðinna fræðasviða tekur mið af sömu þáttum og þegar háskólar eru metnir sem heild, svo sem rannsóknum, áhrifum þeirra í alþjóðlegu vísindastarfi, gæðum kennslu og námsumhverfis og alþjóðlegum tengslum. Jafnframt er horft til hefða í rannsóknum og birtingum á umræddum fræðasviðum.

Listi Times Higher Education yfir þá háskóla sem fremst standa á sviði félagsvísinda byggist á mati á alls 870 skólum frá nærri 90 löndum. Þar er horft til frammistöðu innan fjölmiðla- og samskiptafræði, stjórnmálafræði og alþjóðasamskipta, félagsfræði og landfræði. Sem fyrr segir er Háskóli Íslands þar í 250.-300. sæti en heildarlistann má finna hér.

Enn fremur er Háskólinn þriðja árið í röð á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði menntavísinda. Matið nær að þessu sinni til um 700 skóla í nærri 70 löndum og tekur mið af frammistöðu á sviði kennaramenntunar, uppeldis –og menntunarfræða og rannsókna á sviði menntunar. Þar raðast Háskóli Íslands í 301.-400. sæti og má sjá heildarlistann hér.

Mat Times Higher Education á fremstu skólum heims á sviði viðskipta og hagfræði tekur til nærri 800 háskóla í rúmlega 70 löndum. Matið nær til bæði reksturs og stjórnunar, reikningshalds og fjármála, hagfræði og hagrannsókna. Á þessum sviðum er skólinn í hópi 600 bestu háskóla heims eins og sjá má á heildarlistanum.

Aðrir listar sem Times Higher Education hefur birt í haust hafa sýnt að Háskóli Íslands er í 151.-175. sæti yfir bestu háskóla heims á sviði lífvísinda, í hópi 250 bestu á sviði raunvísinda og sömuleiðis á sviði verkfræði og tækni, í sæti 250-300 á sviði sálfræði og í hópi 500 bestu innan klínískra heilbrigðisvísinda. Þá er ótalinn heildarlisti Times Higher Education yfir bestu háskóla heims, en Háskóli Íslands hefur verið á honum í heilan áratug. 

Þessu til viðbótar rataði skólinn á 14 lista ShanghaiRanking Consultancy yfir fremstu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum árið 2021. Listar Times Higher Education og ShanghaiRanking Consultancy, eða Shanghai-listinn eins og hann er kallaður, eru jafnan taldir áhrifamestu og virtustu matslistar heims á þessu sviði. Háskóli Íslands er einn íslenskra háskóla á þeim báðum.

Von er á einum lista til viðbótar frá Times Higher Education í nóvember en hann tekur til fremstu háskóla heims á sviði hugvísinda.
 

""