Háskóli Íslands nýtur trausts íslensku þjóðarinnar
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (4. mars 2022):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Stofnun Háskóla Íslands fyrir nálega 111 árum var einn mikilvægasti áfanginn í baráttu íslensku þjóðarinnar fyrir því að verða fullvalda og sjálfstæð þjóð. Sjálfstæði er vagga lýðræðis og menntun, framsýni og frjáls sköpun nýrrar þekkingar eru forsenda framfara. Um þetta allt þurfum við að standa vörð öllum stundum.
Þessa dagana verðum við því miður vitni að því hvað sjálfstæði þjóða getur verið brothætt. Það hefur gerst, sem engan óraði fyrir, að brotist hefur út styrjöld í Evrópu þar sem einræðisríki beitir yfirburða hernaðarstyrk sínum gegn nágrannalandi. Um leið og hugur okkar er hjá stríðshrjáðum íbúum Úkraínu og þeim sem lagt hafa á flótta hafa þessir válegu atburðir minnt okkur rækilega á hvað samstaða frjálsra lýðræðisríkja er mikilvæg.
Fyrr í vikunni sendi Samstarfsnefnd háskólastigsins á Íslandi, sem mynduð er af rektorum allra íslensku háskólanna, frá sér yfirlýsingu þar sem innrás Rússa í Úkraínu er fordæmd harðlega. Í yfirlýsingunni segir að samstarfsnefndin lýsi yfir samstöðu með nemendum og starfsfólki úkraínskra háskóla, sem og öllum íbúum Úkraínu. Íslenskir háskólar munu fylgjast náið með framvindu mála og bregðast við eftir því sem málin þróast. Háskólarnir munu vinna með stjórnvöldum varðandi mögulegar leiðir til að koma til móts við nemendur og starfsfólk úkraínskra háskóla sem þurfa að flýja stríðsátök og leita hingað til lands. Háskólarnir munu jafnframt huga sérstaklega að starfsfólki og nemendum sínum frá Úkraínu og Rússlandi, og þeim sem eiga þar skyldfólk og ástvini.
Á umliðinni rúmri öld hefur Háskóli Íslands brautskráð hátt í sextíu þúsund Íslendinga sem hafa byggt hér upp fjölbreytt atvinnulíf og nútímalegt lýðræðis- og velferðarþjóðfélag sem á fáa sína líka um víða veröld. Það er leitun að öðrum háskóla sem hefur lagt jafnmikið til þjóðfélagsins sem fóstrar hann.
Í vikunni birti Gallup niðurstöður árlegrar könnunar á trausti almennings til helstu stofnana samfélagsins. Í könnuninni er jafnframt spurt um traust til ýmiss konar þjónustu sem hið opinbera veitir, s.s. heilbrigðisþjónustu og löggæslu. Könnunin hefur verið gerð samfellt frá árinu 1993.
Háskóli Íslands hefur frá upphafi verið meðal þeirra stofnana sem notið hafa mests trausts og er svo einnig í ár því 77% landsmanna segjast bera mikið eða mjög mikið traust til skólans. Aðeins Landhelgisgæslan (87%) og Lögreglan (78%) eru ofar á listanum. Við erum afar þakklát fyrir þessa dýrmætu viðurkenningu, en hún er umfram allt vitnisburður um það frábæra starf sem þið, kæru nemendur og samstarfsfólk, leggið af mörkum á hverjum degi.
Traustið er eitt af þremur leiðarljósum í nýrri stefnu skólans og því er einstaklega ánægjulegt að sjá að Háskóli Íslands hækkar í ár á lista þeirra stofnana sem njóta mests trausts. En styrkur Háskóla Íslands er ekki einungis sýnilegur innanlands því hann starfar í alþjóðlegu umhverfi. Háskólinn hefur einnig aflað sér virðingar á alþjóðlegum vettvangi sem alhliða og öflugur rannsóknaháskóli enda eru fjölmargir fræðimenn við skólann í fremstu röð samkvæmt viðurkenndum alþjóðlegum matslistum.
Kæru nemendur og samstarfsfólk. Atburðirnir í Úkraínu brýna fyrir okkur gildi frelsis, mannréttinda, lýðræðis og tjáningarfrelsis sem eru í senn undirstaða frjálsra háskóla og lýðræðislegra samfélaga. Við megum aldrei ganga að þessum grunngildum vísum heldur þurfum við að hafa þau í heiðri alla daga og berjast fyrir tilvist þeirra.
Góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor“