Skip to main content
4. október 2017

Háskóli Íslands í hópi 300 bestu á sviði félagsvísinda

Háskóli Íslands er í sæti 251-300 yfir bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda á nýjum lista Times Higher Education University Rankings sem birtur var í dag. Þetta er í annað sinn á skömmum tíma sem Háskólinn kemst á lista vegum Times Higher Education sem tengist fræðasviðum.

Tímaritið Times Higher Education hefur allt frá árinu 2004 birt lista yfir bestu háskóla heims og leit listi fyrir tímabilið 2017-2018 dagsins ljós snemma í haust. Þar reyndist Háskólinn í 201.-250. sæti og í 13.-19. sæti á Norðurlöndum en skólinn hefur verið á listanum allt frá árinu 2011.

Times Higher Education birtir einnig í haust lista yfir fremstu háskóla heims á fjölmörgum fræðasviðum og í dag kom út listi yfir bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda. Við mat á gæðum einstakra fræðasviða er horft til sömu þátta og við mat á háskólum í heild, þ.e. rannsóknastarfs, áhrifa rannsóknanna í alþjóðlegu vísindastarfi, gæða kennslu, námsumhverfis og alþjóðlegra tengsla. Jafnframt er tekið tillit til rannsókna- og birtingarhefða á hverju fræðasviði fyrir sig.

Mat Times Higher Education á bestu háskólunum á sviði félagsvísinda nær til fjölmiðla- og boðskiptafræði, stjórnmálafræði og alþjóðasamskipta, félagsfræði og landfræði. Samkvæmt Times Higher Education raðast Háskólinn í sæti 251-300 á þessum sviðum en þetta er í fyrsta sinn sem Háskólinn kemst á þann stall á sviði félagsvísinda.

„Með þessu er breidd Háskóla Íslands staðfest og styrkur hans á meðal bestu háskóla í heimi. Það er mikill fengur fyrir íslenskt samfélag að hafa aðgang að kraftmiklu vísindafólki og háskólamenntun á heimsmælikvarða í félagsvísindum. Þessi árangur er því mikið gleðiefni,“ segir Daði Már Kristófersson, forseti Félagsvísindasviðs Háskóla Íslands.

Listi Times Higher Education er annar af áhrifamestu og virtustu matslistunum heims á þessu sviði. Hinn er er Shanghai-listinn svokallaði en skemmst er að minnast þess að Háskóli Íslands komst í fyrsta sinn á þann lista fyrr á þessu ári. Sá listi byggist á óháðu mati samtakanna Shanghai Ranking Consultancy á yfir 1.200 háskólum um allan heim og staðfestir ásamt listum Times Higher Education alþjóðlegan styrk Háskóla Íslands á fjölbreyttum fræðasviðum. 

„Þetta eru frábærar fréttir fyrir Háskóla Íslands og íslenskt samfélag. Félagsvísindin eru stærsta fræðasvið Háskóla Íslands. Röðunin staðfestir eftirtektarverðan árangur okkar félagsvísindafólks á alþjóðavettvangi. Fjöldi nemenda í félagsvísindum hefur vaxið mjög mikið á undanförnum árum, mun hraðar en fjöldi akademískra starfsmanna á því sviði. Það er eftirtektarvert að þessi góði árangur næst þrátt fyrir það mikla kennsluálag sem einkennir félagsvísindi,“ segir Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands.

Times Higher Education birti fyrr í haust lista yfir 400 bestu háskólana í hugvísindum og í þeim hópi var Háskóli Íslands. Tímaritið birtir síðar í haust lista yfir fremstu háskóla heims á sviði 1) verkfræði, tækni og  tölvunarfræði, 2) lífvísinda, sálfræði, læknisfræði og lýðheilsuvísinda og loks á sviði 3) náttúruvísinda. 

Nánari upplýsingar um lista Times Higher Education yfir bestu háskóla heims á sviði félagsvísinda má finna á heimasíðu tímaritsins.

""