Háskóli Íslands fyrsti samstarfsskólinn sem nýr rektor UMN heimsækir
Joan T.A. Gabel, nýr rektor University of Minnesota – UMN, kom í heimsókn í Háskóla Íslands í morgun ásamt átta manna sendinefnd. Þau munu næstu tvo daga kynna sér starf Háskóla Íslands og eiga fundi með með ýmsum fulltrúum skólans um aukið samstarf skólanna tveggja.
Gabel varð í fyrrasumar fyrsta konan til að gegna starfi rektors UMN og heimsóknin til Íslands er fyrsta ferð hennar til erlends samstarfsskóla. Á dagskrá í heimsókninni er m.a. fundur með Jóni Atla Benediktssyni rektor og öðrum stjórnendum Háskóla Íslands. Fulltrúar í sendinefndinni munu svo í framhaldinu kynna sér starf Háskólans og eiga fundi með fulltrúum einstakra deilda og stoðsviða innan Háskóla Íslands um aukið samstarf.
University of Minnesota og Háskóli Íslands hafa átt í samstarfi um um stúdenta-, kennara- og starfsmannaskipti í 38 ár en UMN var fyrsti erlendi skólinn sem Háskólinn gerði slíkan tvíhliða samstarfssamning við. Því má segja að samningurinn hafi markað upphaf að víðtæku alþjóðlegu samstarfi og umsvifum Háskóla Íslands. Skólarnir hafa jafnframt á síðustu árum eflt rannsóknasamstarf sitt og er áhugi á að útvíkka samstarfið enn frekar, bæði í rannsóknum og kennslu.
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, og Joan T.A. Gabel, nýr rektor University of Minnesota – UMN, á skrifstofu rektors í morgun. MYND/Kristinn Ingvarsson.
Til marks um traust samband skólanna er við UMN styrktarsjóður Val Bjornson sem styrkir nemendur Háskóla Íslands til námsdvalar við skólann. Sjóðurinn var stofnaður í minningu Valdimars „Val“ Bjornsons, fyrrverandi fjármálaráðherra Minnesota (1906–1987), sem var af íslensku bergi brotinn og annt um íslenska námsmenn í Minnesota. Sjóðurinn hefur notið mikils stuðnings vestur-íslenska samfélagsins í Minnesota og hafa nú þegar 40 nemendur haldið til Minnesota frá Háskóla Íslands með stuðningi sjóðsins.
Háskóli Íslands styrkir sömuleiðis nemendur frá UMN sem koma í skiptinám. Þá er sjóður við UMN í nafni Carol Pazandak sem starfsmenn Háskóla Íslands geta sótt í til að stunda rannsóknir eða heimsækja UMN. Þá er hér á landi starfandi Hollvinafélag fyrrverandi nemenda UMN á Íslandi. Jónína Ólafsdóttir Kárdal, náms- og starfsráðgjafi við Háskóla Íslands, er formaður félagsins.
Um Minnesota-háskóla
Minnesota-háskóli var stofnaður árið 1851 og stunda rúmlega 60 þúsund nám við skólann á nokkrum stöðum í fylkinu en langstærsti kampusinn er í Minneapolis/St. Paul. Skólinn er alhliða rannsóknaháskóli og er m.a. í 79. sæti á matslista Times Higer Education yfir bestu háskóla heims.