Skip to main content
29. janúar 2026

Háskólaráðherra í heimsókn í HÍ

Háskólaráðherra í heimsókn í HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Logi Einarsson menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðherra heimsótti Háskóla Íslands þriðjudaginn 27. janúar ásamt samstarfsfólki sínu úr menningar-, nýsköpunar- og háskólaráðuneytinu og kynnti sér uppbyggingu í Sögu og Hermisetri HÍ og Landspítala ásamt því að funda með stjórnendum Háskólans um helstu áherslur í starfi skólans.

Silja Bára R. Ómarsdóttir, rektor Háskóla Íslands, tók á móti Loga í Sögu, sem ráðherra tók reyndar þátt í að vígja skömmu fyrir áramót. Í þetta sinn gafst ráðherra færi á skoða húsakynnin betur, þar á meðal þau fjölbreyttu kennslu- og námsrými á vegum Menntavísindasviðs sem finna má í húsinu. Þar má nefna sértæk námsrými fyrir kennslu list- og verkgreina á borð við tónmennt, leiklist og hönnun og textíl og sérhönnuð rými fyrir kennslu í menntunarfræði yngri barna, náttúruvísinda og stærðfræði. 

Í Sögu fundaði ráðherra enn fremur með rektor, aðstoðarrektorum, forsetum fræðasviða og framkvæmdastjóra miðlægrar stjórnsýslu þar sem farið var yfir helstu áherslur í starfi skólans sem heildar og innan einstakra fræðasviða. Auk þess var rætt um fjármál skólans, verðandi háskólasamstæðu HÍ og Háskólans á Hólum, stefnumörkun HÍ til næstu fimm ára og málefni erlendra nemenda. Með ráðherra í för og á fundinum voru þau Sigrún Brynja Einarsdóttir ráðuneytisstjóri, Tómas Guðjónsson, aðstoðarmaður ráðherra, Jón Vilberg Guðjónsson, skrifstofustjóri skrifstofu háskóla og vísinda, og Valur Árnason, sérfræðingur á skrifstofu háskóla og vísinda og tengiliður ráðuneytisins við HÍ.

Í Hermisetri HÍog Landspítala fer fram færni- og hermikennsla sem felst í því að herma með tæknibúnaði eða sýndarsjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi og undir leiðsögn. Með tilkomu hins nýja seturs standa Landspítalinn og Háskóli Íslands jafnfætis sambærilegum stofnunum víða um heim þegar kemur að hermikennslu og þjálfun heilbrigðisstétta

Að lokinni heimsókn í Sögu hélt ráðherra og samstarfsfólk ásamt fulltrúum Háskólans í Eirberg þar sem þau kynntu sér nýtt Hermisetur Háskóla Íslands og Landspítala (HermÍs) sem var opnað í fyrravor. Runólfur Pálsson, forstjóri Landspítala, Helga Bragadóttir, forseti Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar HÍ, Sædís Sævarsdóttir, forseti Læknadeildar skólans, Valgerður Lísa Sigurðardóttir, formaður námsbrautar í ljósmóðurfræði, og Sólveig Ása Árnadóttir, formaður námsbrautar í sjúkraþjálfun, tóku m.a. á móti hópnum ásamt Þorsteini Jónssyni, aðjunkt í bráða- og gjörgæsluhjúkrun við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ og forstöðumanni HermÍs.

Setrið er ætlað bæði nemendum Heilbrigðisvísindasviðs Háskóla Íslands og starfsfólki Landspítalans. Þar fer fram færni- og hermikennsla sem felst í því að herma með tæknibúnaði eða sýndarsjúklingum eftir raunverulegum aðstæðum, aðgerðum eða inngripum í öruggu umhverfi og undir leiðsögn. Með tilkomu hins nýja seturs standa Landspítalinn og Háskóli Íslands jafnfætis sambærilegum stofnunum víða um heim þegar kemur að hermikennslu og þjálfun heilbrigðisstétta og vonir standa til að með setrinu megi einnig stuðla að fjölgun þeirra nemenda sem hægt er að taka inn í klínískt nám í heilbrigðisgreinum. 

Fleiri myndir frá heimsókninni má finna hér að neðan. Þær tók Kristinn Ingvarsson.

Ráðherra og rektor
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Sögu.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.
Frá heimsókn í Hermisetur HÍ og Landspítala.