Hafdís Guðjónsdóttir nýr ritstjóri TUM
„Það er alltaf ánægjulegt að sýsla með fræðilegt efni um uppeldis- og menntamál og kynnast því sem aðrir eru að rannsaka og skrifa um,“ segir Hafdís Guðjónsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, en hún er nýtekin við sem ritstjóri Tímarits um uppeldi og menntun ásamt Hermínu Gunnþórsdóttur, lektor við Háskólann á Akureyri. Hermína er tilnefnd af Félagi um menntarannsóknir og hefur verið annar tveggja ritstjóra tímaritsins undanfarin tvö ár.
Í tímaritinu birtast greinar sem byggja á rannsóknum um uppeldis- og menntamál sem samþykktar hafa verið af ritrýnum sem eru sérfræðingar hver á sínu sviði. Hafdís segir að allir þeir sem hafa áhuga á menntamálum og vinna við þann málaflokk ættu að geta fundið eitthvað við sitt hæfi í ritinu. „Tímaritið nýtist jafnframt þeim sem vinna að rannsóknum, bæði nemendum og rannsakendum.“
Hafdís víkur talinu að væntanlegum breytingum á tímaritinu. „Ritstjórn mun áfram leggja áherslu á að tímaritið endurspegli það sem er að gerast í menntamálum, bæði hér á landi og erlendis. Við viljum einnig að efnið hvetji til umræðu og skoðanaskipta um uppeldis- og menntamál. Ýmsir möguleikar standa til boða, eins og að gefa út sérrit eða þemahefti um ákveðin málefni eða í tilefni ákveðinna tímamóta. Hugsanlega gætum við fengið sérfræðinga til að skiptast á skoðunum um málefni sem eru ofarlega á baugi eða fengið erlenda sérfræðinga til að skrifa um ákveðin efni,“ segir Hafdís að endingu. Ljóst er að spennandi verður að fylgjast með þróun ritsins í náinni framtíð.
Menntavísindasvið þakkar fráfarandi ritstjóra, Ingólfi Ásgeiri Jóhannessyni prófessor, fyrir vel unnin störf og óskar honum velfarnaðar.
Um Tímarit um uppeldi og menntun
Árið 2015 voru tímaritin Uppeldi og menntun og Tímarit um menntarannsóknir sameinuð undir heitinu Tímarit um uppeldi og menntun. Í ritnefnd sitja þrír fulltrúar frá Menntavísindasviði og þrír frá Félagi um menntarannsóknir og er hlutverk hennar að vera ráðgefandi og setja tímaritinu ritstjórnarstefnu. Enn fremur er ritstjórum og ritnefnd falið að stofna til alþjóðlegs ráðgjafaráðs þar sem leitað skal til erlendra fræðimanna og þeirra Íslendinga sem starfa við erlenda háskóla.
Tímaritið kemur út í rafrænu formi tvisvar á ári og er hvort hefti um sig prentað og sent áskrifendum. Auk þess er ritið í boði í lausasölu.