Skip to main content
31. mars 2021

Gleðilega páska

Gleðilega páska - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (31. mars):

„Kæru nemendur og samstarfsfólk. 

Háskóli Íslands hefur unnið að breytingum með þjóðinni í hundrað og tíu ár. Á þeim tíma hefur kapp verið lagt á öflugt og fjölbreytt nám til að treysta framfarir á öllum sviðum. Þungi hefur verið lagður á rannsóknir og nýsköpun sem hafa umbylt lífsgæðum okkar og aukið skilning á þeim veruleika sem við búum við, umhverfi okkar, lífríki, auðlindum og samfélagi.

Háskóli Íslands hefur frá fyrstu tíð verið virkur þátttakandi í samfélagi og atvinnulífi og í nýrri heildarstefnu skólans er áfram lögð áhersla á þessi mikilvægu tengsl við athafnalíf og íslenska þjóð. Vinna við stefnuna er komin á góðan rekspöl.

Undanfarin fimm ár höfum við haft kjörorðin „Öflugur háskóli – farsælt samfélag” að leiðarljósi og í nýrri stefnu viljum við stíga skrefinu lengra undir yfirskriftinni „Betri háskóli – betra samfélag.“

Í öllu stefnumótunarferlinu hefur verið lögð rík áhersla á samtal og samráð við alla hagaðila til að tryggja að ný stefna verði eign okkar allra, vegvísir og sáttmáli sem við getum sameinast um. Ég hvet ykkur til að kynna ykkur upplýsingar um stefnuvinnuna á heimasíðu skólans.

Í gær barst ykkur öllum, kæra samstarfsfólk og nemendur, tölvupóstur í formi könnunar um nokkur grunnatriði nýju stefnunnar. Ég hvet ykkur til að svara könnuninni og koma sjónarmiðum ykkar á framfæri.

Það hefur ekki farið fram hjá neinum að heilbrigðisyfirvöld þurftu að grípa til harðra sóttvarnaraðgerða til að stöðva fjórðu bylgju heimsfaraldursins áður en hún kæmist á skrið. Sem fyrr eru þessar aðgerðir byggðar á vísindalegri þekkingu og yfirveguðu mati. Árangurinn hingað til gefur góð fyrirheit en of snemmt er að fagna sigri. Í nýrri regluðgerð um skólahald sem kom í dag og tekur gildi þann 1. apríl eru breyttar samkomutakmarkanir innan Háskóla Íslands. Hámarksfjöldi í kennslu- og lesrýmum verður 50 manns og 2 metra nándarreglan verður áfram í gildi. Ef ekki er hægt að uppfylla 2 metra regluna á að nota andlitsgrímur. Starfsfólki verður heimilt að fara á milli sóttvarnarhólfa en nemendum ekki. Við gerum okkur því vonir um að framkvæmd lokaprófa geti að mestu orðið eins og áður var auglýst, en það mun skýrast á næstu vikum.

Þrátt fyrir að veturinn hafi reynst okkur mildur lengst af hér sunnan fjalla þá er kominn sá tími þegar við þráum vorið hvað heitast. Á þessum tíma árs sjáum við gjarnan snörp átök milli vors og vetrar og eru líkur á sveiflum í veðrinu um páskahelgina. Við fáum milda vinda og vafalítið páskahret líka með töluverðu frosti. En lóan er komin og ekkert boðar betur komu sumarsins en fyrstu farfuglarnir sem fljúga jafnvel yfir bláhvíta auðnina eins og segir í ljóði Steins Steinars.

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Njótum nú páskahelgarinnar sem best við getum, hvernig sem viðrar. Munum að birtan innra með okkur er ekki síðri en sú sem kemur að utan. Hugum áfram hvert að öðru og gætum að okkur sjálfum.

Gleðilega páska. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“  

Háskólatorg