Fyrstu nemendurnir ljúka námi af nýrri námsleið í hjúkrunarfræði
Um 250 nemendur uppskáru á föstudag laun erfiðis síðustu missera og ára þegar þau tóku við útskriftarskírteinum sínum frá Háskóla Íslands. Brautskráð var af öllum fimm fræðasviðum skólans og í hópi kandídata voru fyrstu nemendurnir sem ljúka námi af nýrri tveggja ára námsleið í hjúkrunarfræði fyrir fólk með annað háskólapróf.
Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild skólans hóf að bjóða upp á námið árið 2020. Námsleiðin er ætluð nemendum sem sótt hafa annað nám við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild eða hafa lokið öðru námi frá annarri deild og fengið það metið. Markmiðið með náminu er ekki aðeins að koma til móts við aukna þörf heilbrigðiskerfisins fyrir háskólamenntaða hjúkrunarfræðinga heldur ekki síður að auka möguleika fólks sem þegar er komið út í atvinnulífið til að afla sér frekari menntunar og hasla sér völl á nýjum starfsvettvangi.
„Segja má að það fyrirkomulag sé á undanhaldi að fólk mennti sig snemma á ævinni til tiltekins starfs og gegni því svo starfsævina á enda. Þess í stað færist það sífellt í vöxt að fólk sæki sér viðbótarmenntun síðar á lífsleiðinni, ýmist í sinni grein eða á öðru sviði og skipti að því búnu um starfsvettvang. Þetta er í senn afleiðing af því að ævilíkur fólks hafa aukist verulega og hefðbundnar hugmyndir um æviskeiðin riðlast að sama skapi, en einnig hefur þjóðfélagið tekið miklum breytingum og tækninni fleygt fram svo að fyrirsjáanlegt er að ýmsar hefðbundnar starfsgreinar munu líða undir lok og aðrar koma í þeirra stað,“ sagði Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, þegar hann ávarpaði brautskráningarkandídata á athöfn sem Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild stóð fyrir að þessu tilefni.
Nám í hjúkrunarfræði fyrir fólk sem sem lokið hefur öðru háskólanámi á sér langa í öðrum löndum, t.d. í Bandaríkjunum. Við þróun námsleiðarinnar hér á landi var leitað í smiðju University of Minnesota sem er elsti samstarfsháskóli Háskóla Íslands, en þessi tveir háskólar hafa unnið náið saman í 40 ár, m.a. á sviði nemenda- og starfsmannaskipta. Það var einmitt háskólinn í Minnesota sem var einn helsti bakhjarl Háskóla Íslands þegar hjúkrunarfræðideild var sett á laggirnar við HÍ á sínum tíma.