Skip to main content
11. apríl 2025

Fyrstu konurnar skipaðar prófessorar í stærðfræði við HÍ

Fyrstu konurnar skipaðar prófessorar í stærðfræði við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Því er fagnað í dag að þrjár konur hafa hlotið framgang í stöðu prófessors við námsbraut í stærðfræði við Háskóla Íslands, fyrstar kvenna. Þetta eru þær Anna Helga Jónsdóttir, prófessor í tölfræði, Valentina Giangreco Puletti, prófessor í stærðfræðilegri eðlisfræði, og Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði.

Lengst af gengdi engin kona prófessorsstöðu við námsbrautina en vísindakonurnar þrjár hafa á undanförnum misserum ýmist verið ráðnar sem prófessar eða fengið framgang úr starfi dósents í starf prófessors. Þessum gleðilega áfanga er fagnað með svokallaðri innsetningarathöfn Raunvísindadeildar þar sem prófessorarnir segja frá lífi sínu og störfum og fer vel á því að athöfnin fari fram í Veröld – húsinu sem kennt er við annan brautryðjanda, Vigdísi Finnbogadóttur.

Þær Anna Helga, Sigrún og Valentina státa af afar fjölbreyttri reynslu í rannsóknum og kennslu eins og sjá má hér að neðan.

Anna Helga Jónsdóttir lauk doktorsprófi í tölfræði frá Háskóla Íslands árið 2015, M.Sc.-prófi í hagnýtri stærðfræði frá Danmarks Tekniske Universitet og B.Sc.-prófi í véla- og iðnaðarverkfræði frá Háskóla Íslands.

Rannsóknir hennar snúa meðal annars að hagnýtingu tölfræði í menntavísindum og hefur hún verið leiðandi í þróun opins hugbúnaðar til stærðfræði- og tölfræðikennslu. Hún hefur ásamt Gunnari Stefánssyni prófessor leitt menntunarverkefni í Kenía með það markmiði að aðstoða nemendur að komast inn í háskóla. Anna Helga hefur hlotið fjölda viðurkenninga fyrir vísindastörf og framúrskarandi kennslu, þar á meðal Vísinda- og nýsköpunarverðlaun Háskóla Íslands, Jafnréttisverðlaun Háskóla Íslands og kennsluverðlaun Verkfræði- og náttúruvísindasviðs HÍ. Hún var einnig valin í Kennsluakademíu opinberu háskólanna árið 2021.

Anna Helga hefur veitt forstöðu fjölmörgum verkefnum tengdum námi og kennslu og kennt fjölbreytt námskeið í tölfræði og gagnagreiningu við Háskóla Íslands. Hún hefur jafnframt verið virkur leiðbeinandi meistaranema í tölfræði og skyldum greinum.

Sigrún Helga Lund lauk doktorsnámi í tölfræði frá HÍ árið 2014 og hefur áður starfað sem prófessor við Læknadeild HÍ og sem tölfræðingur hjá Íslenskri erfðagreiningu. Rannsóknir hennar snúa meðal annars að faraldsfræði, erfðafræði, klínískum rannsóknum og þróun aðferða fyrir greiningu á stórum gagnasöfnum. Hún hefur birt yfir 100 ritrýndar vísindagreinar og hlotið fjölmarga rannsóknar- og kennslustyrki, bæði sem aðal- og meðrannsakandi.

Sigrún hefur kennt tölfræði og stærðfræði í yfir tvo áratugi og gegnt lykilhlutverki í þróun nýs kennsluefnis og rafrænna námsleiða. Hún hefur leiðbeint tugum meistara- og doktorsnema og er jafnframt höfundur tveggja kennslubóka í tölfræði og tölvuhugbúnaðinum R.

Hún hefur komið víða við í þjónustu við samfélagið – verið ráðgefandi tölfræðingur fyrir heilbrigðiskerfið, setið í opinberum nefndum og unnið að stefnumótun á sviði jafnréttis og sjálfbærrar samgönguþróunar. Hún var m.a. formaður aðgerðahóps um launajafnrétti og leiðir nú vinnu innanríkisráðuneytisins um stefnu fyrir virka ferðamáta og smáfarartæki.

Við þetta má bæta að Sigrún er margfaldur Íslands- og Evrópumeistari í brasilísku jiu jitsu, og hefur einnig látið til sín taka í menningar- og félagsmálum, m.a. sem stofnandi Samtaka um bíllausan lífsstíl og Skraflfélags Íslands.

Valentina Giangreco Marotta Puletti lauk meistaragráðu í kennilegri eðlisfræði frá Háskólanum í Perugia á Ítalíu árið 2004 og doktorsprófi frá Uppsalaháskóla í Svíþjóð árið 2009. Árið 2020 varð hún fyrst kvenna til að hljóta prófessorsstöðu í stærðfræði við Háskóla Íslands.
Valentina er virkur vísindamaður á sviði fræðilegrar eðlisfræði og leggur sérstaka áherslu á strengjafræði, AdS/CFT tvífundun, samþættingu (e. integrability), skammtasviðakenningar og samtvinnun (e. entanglement). Hún hefur birt fjölda ritrýndra greina, haldið erindi víða um heim og kennt  fjölmörg námskeið við HÍ. Hún hefur einnig gegnt lykilhlutverki í skipulagningu alþjóðlegra ráðstefna og rannsóknarsamstarfs.

Valentina hefur hlotið marga veglega rannsóknarstyrki. Hún er meðhöfundur að rannsóknarverkefni sem halut Öndvegisstyrk Rannsóknasjóðs (Grant of Excellence) fyrir tímabilið 2022–2024. Einnig hlaut hún rannsóknarstyrk frá sama sjóði á árunum 2016–2018 og áður hafði hún unnið til nýdoktorsstyrks frá sænska Vísindaráðinu (Vetenskapsrådet) á árunum 2011–2013.

Árið 2024 hlaut Valentina viðurkenningu fyrir lofsvert framlag til jafnréttismála við Háskóla Íslands. Hún hefur lagt mikla áherslu á að efla hlut kvenna í eðlisfræði og stuðla að inngildingu minnihlutahópa í vísindasamfélaginu. Hún hefur frá árinu 2019 verið stjórnarmaður og fulltrúi Íslands í samtökunum Nordic Network for Diversity in Physics (NORDiP), sem starfar með stuðningi Nordforsk. Á hennar frumkvæði fór árleg NORDiP ráðstefna fram í Reykjavík árið 2022, þar sem sjónum var beint að kynjajafnvægi og áskorunum kvenna í eðlisfræði.

Háskóli Íslands óskar þeim Önnu Helgu, Sigrúnu og Valentinu innilega til hamingju með prófessorsstöðurnar.

Þær Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði, Anna Helga Jónsdóttir, prófessor í tölfræði, og Valentina Giangreco Puletti, prófessor í stærðfræðilegri eðlisfræði, eru fyrstu prófessorarnir við námsbraut við stærðfræði við HÍ.

Þær Sigrún Helga Lund, prófessor í tölfræði, Anna Helga Jónsdóttir, prófessor í tölfræði, og Valentina Giangreco Puletti, prófessor í stærðfræðilegri eðlisfræði, eru fyrstu kvenprófessorarnir við námsbraut við stærðfræði við HÍ. MYND/Kristinn Ingvarsson