Skip to main content
22. apríl 2017

Fyrsta íslenska bókin um skóla án aðgreiningar

""

„Það er í raun engin leið að hugsa sér íslenskt skólakerfi í dag án þessarar stefnu,“ segir Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Menntavísindasvið og einn af ritstjórum bókarinnar Skóli margbreytileikans: Menntun og manngildi í kjölfar Salamanca, sem kom út í vikunni. Í bókinni fjalla sautján fræðimenn um hugmyndina og hugsjónina um skóla og samfélag án aðgreiningar út frá ólíkum sjónarhornum. Bókin svarar kalli tímans um betri skilning á skólastarfi og stefnumótun sem hefur lýðræði, réttlæti og gæðakennslu fyrir öll börn að leiðarljósi í samfélagi sem einkennist af margbreytileika.

Árið 1994 komu fulltrúar 92 ríkisstjórna saman á heimsráðstefnu í borginni Salamanca á Spáni og samþykktu yfirlýsingu um skóla án aðgreiningar og í kjölfarið tóku ríki um allan heim upp þessa stefnu í einni eða annarri mynd. „Í raun má segja að stefnan hafi verið lögfest þegar árið 1974 og allar götur síðan hefur verið unnið að því að búa svo um hnútana að almennir skólar væru staðir þar sem öll börn geta notið menntunar við hæfi. Það urðu vitaskuld mikil tímamót árið 1994 þegar þessi stefna varð alþjóðlegt stefnumál,“ segir Ólafur.

Nú er komin töluverð reynsla á stefnuna í íslensku skólakerfi. Hvert er líklegt að hún leiði okkur? „Að almennur skóli skuli vera fyrir öll börn, þ.e. að öll börn eigi rétt á að sækja menntun í almennan skóla án aðgreiningar, er hluti af því að lifa og búa í lýðræðislegu samfélagi. Mér finnst líklegt að stefnan leiði til þess að skólar, frá leikskólum og upp í háskóla, verði efldir þannig að þeir geti svarað kalli tímans um lýðræðislegt og réttlátt samfélag, þ.e. samfélag án aðgreiningar. Þótt stundum blási á móti þá trúi ég því að Íslendingum sé alvara með því að vilja búa í lýðræðislegu samfélagi.“

Í tilefni af útgáfu bókarinnar bauð Rannsóknastofa um skóla án aðgreiningar til hófs í húsnæði Menntavísindasviðs Háskóla Íslands þann 18. apríl þar sem forseta Íslands, Guðna Th. Jóhannessyni, var afhent fyrsta eintakið. Þess má geta að bókin er fyrsta greinasafnið um stefnuna um skóla án aðgreiningar sem kemur út hér á landi.  

Ritstjórar bókarinnar eru Dóra S. Bjarnason, Hermína Gunnþórsdóttir og Ólafur Páll Jónsson. Háskólaútgáfan gefur bókina út.

Myndir frá útgáfuhófinu

Dóra S. Bjarnason og Guðni Th. Jóhannesson