Skip to main content
18. júní 2017

Fróðleiksfús ungmenni fræddust um menntavísindi

""

Háskóli unga fólksins fór fram í fjórtánda sinn dagana 12.-16. júní sl. í Háskóla Íslands. Uppselt var í skólann líkt og undanfarin ár og sóttu um 350 nemendur á aldrinum 12-16 ára námskeið sem tengjast öllum fræðasviðum Háskólans.

Fyrirkomulag kennslunnar í ár var með þeim hætti að nemendur sóttu þrjú námskeið, einn þemadag og örnámskeið. Fjölmörg námskeið frá Menntavísindasviði voru í boði, sem og sérstakur þemadagur en þá vörðu nemendur heilum degi í tiltekinni grein. Nýjungar á þemadeginum þetta árið voru FabLab og stafræn tækni, Mannréttindi um víða veröld og Lífsleikni – leiklist – gleði. Þá gátu nemendur einnig valið um námskeiðin tómstunda- og félagsmálafræði, lífsleikni og vefsmíði.

Efnt var til glæsilegrar lokahátíðar í Háskólabíói á föstudaginn þar sem nemendur fengu afhent viðurkenningarskjal.

Fulltrúar Menntavísindasviðs í Háskóla unga fólksins voru Skúlína Hlíf Kjartansdóttir doktorsnemi og Sólveig Jakobsdóttir dósent með þemadaginn FabLab og stafræn tækni, Ása Helga Ragnarsdóttir aðjunkt og Hanna Ólafsdóttir lektor með örnámskeiðið lífsleiki og þemadaginn Lífsleikni – leiklist – dans, Súsanna Margrét Gestsdóttir, sagnfræðingur og starfsþjálfari kennaranema með þemadaginn Mannréttindi um víða veröld og Róshildur Björnsdóttir og Birta Baldursdóttir, fyrrum nemendur í tómstunda- og félagsmálafræði með námskeið og þemadag í tómstundafræði. Auk þess var Salvör Gissurardóttir lektor með námskeið í vefsmíði.

Nánari upplýsingar um námskeiðin má finna á vefsíðu Háskóla unga fólksins.

Háskóli unga fólksins 2017
Nemendur í Háskóla unga fólksins
Nemendur í Háskóla unga fólksins
Nemendur í Háskóla unga fólksins
Nemendur í Háskóla unga fólksins