Skip to main content
23. september 2024

Framtíð menntunar á tímum gervigreindar á Menntakviku í ár

Framtíð menntunar á tímum gervigreindar á Menntakviku í ár - á vefsíðu Háskóla Íslands

Hvernig tengjast mannréttindi, lýðræði, sjálfbærni og menntun í anda hnattrænnar borgaravitundar við gervigreind? Hver eru tengsl virkrar þátttöku í lestri á mið- og unglingastigi við snjallsímanotkun? Hver er líkamleg afkastageta 14 íslenskra drengja í samanburði við norska jafnaldra og hvert er samspil kyngervis og stafrænnar fundamenningar? Þessum spurningum og mörgum öðrum verður varpað fram og leitast við að svara á Menntakviku, árlegri ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands, sem fer fram dagana 26. og 27. september í tilvonandi húsnæði sviðsins í Sögu við Hagatorg og í Aðalbyggingu HÍ. Ráðstefnan er öllum opin og ókeypis.

Menntakvika hefur fyrir löngu unnið sér sess sem ein af meginráðstefnum hvers árs í menntavísindum en þar miðlar bæði fræðafólk og starfsfólk innan menntakerfisins nýjustu rannsóknum og öðru sem er efst á baugi í menntavísindum og á tengdum sviðum hverju sinni.  

Yfirskrift Menntakviku í ár er Framtíð menntunar á tímum gervigreindar og alls verða flutt 210 erindi í 55 málstofum á ráðstefnunni. Auk ofangreindra umfjöllunarefna snerta erindin m.a. og farsæld barna, gervigreind í kennslu, bragðlaukaþjálfun, hreyfingu og heilsu ungmenna, leikskóla- og frístundastarf frá ýmsum sjónarhornum og skólastarf til velfarnaðar.

 

Susan Golifer, lektor á Menntavísindasviði HÍ, er meðal þeirra sem flytja erindi á ráðstefnunni en hún rýnir í samspil mannréttinda, lýðræðis, sjálfbærni og menntunar í anda hnattrænnar borgaravitundar við gervigreind.

Fleiri stutt kynningarmyndbönd um Menntakviku

Ráðstefnan verður sett með opnunarmálstofu fimmtudaginn 26. september kl. 13.00–14.30 í Hátíðasal Aðalbyggingar HÍ. Á opnunarmálstofunni verður fjallað um hvernig gervigreind er að umbreyta menntakerfinu og hvaða tækifæri og áskoranir fylgja þessari þróun. Leiðandi sérfræðingar, kennarar og stefnumótendur munu deila innsýn sinni og reynslu af því að nýta gervigreind við skipulag náms, ekki síst ýmis máltækniforrit sem sífellt verða öflugri. Þá verður einnig spurt hvað sé ábyrg notkun gervigreindar og hvaða mannlegu eiginleika verði að leggja rækt við á tímum örrar tækniþróunar.

  • Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir háskóla-, iðnaðar og nýsköpunarráðherra flytur ávarp
  • Helena Sigurðardóttir á kennslu- og upplýsingatæknimiðstöð Háskólans á Akureyri flytur erindið „Tækifæri í menntun með notkun gervigreindar“
  • Hjörvar Ingi Haraldsson, framhaldsskólakennari við Fjölbrautaskólann í Breiðholti, flytur erindið „Aðstoðarkennarinn“ 
  • Lilja Dögg Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Almannaróms, miðstöðvar um máltækni flytur erindið „Þegar tæknin talar“
  • Hafsteinn Einarsson, dósent við Verkfræði- og náttúruvísindasvið, Háskóla Íslands flytur erindið „Samning fjölvalsspurninga með aðstoð gervigreindar“ 

Ólafur Páll Jónsson, prófessor við Menntavísindasvið er fundarstjóri og stýrir pallborðsumræðum og Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands ávarpar málstofugesti í lokin. 

Sjá dagskrá opnunarmálstofu hér 

Streymt verður frá opnunarmálstofunni

Málstofur og erindi Menntakviku fara að öðru leyti fram föstudaginn 27. september eins og sjá má á menntakvika.hi.is
 

logo Menntakviku