Framhaldsnám í foreldrafræðslu tilnefnt til verðlauna í Bandaríkjunum
„Þessi tilnefning er mikil viðurkenning á samstarfi okkar og samkennslu,“ segir Hrund Þórarins Ingudóttir, lektor og umsjónarmaður námsleiðar í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, sem kennd er við Menntavísindasvið Háskóla Íslands í samstarfi við Minnesota-háskóla. Samstarf og samkennsla háskólanna um námið var á dögunum tilnefnt til virtra alþjóðlegra verðlauna á sviði kennslufræða af samtökum háskóla á sviði kennaramenntunar í Bandaríkjunum (e. American Association of Colleges for Teacher Education). Samstarfið er tilnefnt í flokknum „Best Practice Award in Support of Global and International Perspectives“ og verða verðlaunin afhent við hátíðlega athöfn þann 1. febrúar 2018 í Baltimore.
Framhaldsnám í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf hófst við Háskóla Íslands haustið 2015 og er það fyrsta námsleiðin í foreldrafræðslu hér á landi. Hátt í fjörutíu nemendur leggja stund á námið sem hefur það að markmiði að búa fagfólk undir að vinna með foreldrum barna með áherslu á margbreytileika fjölskyldna. Í náminu er enn fremur lögð áhersla á að styrkja sjálfstraust foreldra í uppeldishlutverki sínu með fræðslu, umræðu og ráðgjöf um þroska barna.
Hrund hefur haft umsjón með náminu frá upphafi. „Við undirbúning námsleiðarinnar voru námskeið við Háskólann kortlögð og skoðað hvaða námskeið gætu nýst á námsleiðinni. Í framhaldi var talið best að leita til samstarfs við Minnesota-háskóla um kennslu tveggja námskeiða til að framfylgja markmiðum námsins,“ lýsir Hrund en hún tók þátt í að skipuleggja námsleiðina ásamt Sigrúnu Aðalbjarnardóttur, prófessor við Háskóla Íslands, sem leiddi starfið og nutu þær stuðnings Susan Walker, dósents við Minnesota-háskóla.
Lengi hafði verið áhugi á að bjóða upp á slíkt framhaldsnám innan Menntavísindasviðs en það gekk ekki eftir fyrr en persónuleg tengsl höfðu myndast við fræðimenn Minnesota-háskóla. Hrund tók hluta af doktorsnámi sínu við skólann en hún lauk doktorsprófi frá Háskóla Íslands árið 2015 og fjallaði rannsókn hennar um uppeldissýn feðra. „Hvað sjálfa mig varðar kviknaði áhugi minn á viðfangsefninu þegar ég kenndi við Uppeldis- og menntunarfræðideild og ljóst var hversu lítið er til af íslenskum rannsóknum á sýn foreldra á uppeldishlutverk sitt,“ bætir hún við og segir jafnframt að brýnt sé að auka rannsóknir á þessu sviði menntarannsókna.
Háskóli Íslands og Minnesota-háskóli hafa átt í farsælu samstarfi á undanförnum árum og nær það m.a. til hjúkrunarfræði, læknisfræði, upplýsingatækni á heilbrigðissviði, lýðheilsuvísinda og menntunarfræða. Þess má geta að Minnesota-háskóli er elsti samstarfsskóli Háskóla Íslands en stofnanirnar fögnuðu 35 ára samstarfsafmæli í Háskóla Íslands síðastliðið vor.