Framhaldsmenntun hjúkrunarfræðinga við Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild HÍ
Viðmið um æðri menntun og prófgráður (VÆP) á Íslandi lýsa uppbyggingu náms- og prófgráða á háskólastigi, með áherslu á hæfni og lærdómsviðmið við námslok. Ný viðmið sem voru kynnt árið 2022 eru nú í endurskoðun, og er von á nýrri reglugerð fyrir árslok. Markmið þessara breytinga er að færa háskólanám hér á landi nær evrópska hæfnirammanum fyrir háskólastigið (QF-EHEA). Allir háskólar sem hafa viðurkenningu ráðherra samkvæmt lögum um háskóla nr. 63/2006 skulu fylgja þessum viðmiðum, og eru þau grundvöllur fyrir lýsingu á þekkingu, leikni og hæfni nemenda sem ljúka ólíkum prófgráðum og tengjast gæðaeftirliti með háskólastarfi.
Í endurskoðuðum VÆP verður ekki lengur boðið upp á 30/32 ECTS eininga viðbótadiplómanám á meistarastigi á sama formi og áður. Um leið og fyrirkomulag styttra náms til sérhæfingar innan Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideildar Háskóla Íslands (HÍ) liggur fyrir, verður það kynnt.
Önnur breyting sem hefur áhrif á framhaldsnám við deildina er, að ekki verður leyfilegt að meta ECTS einingar milli háskólaþrepa. Þýðir þetta að gert er ráð fyrir því að eftir 2-3 ár, eða í síðasta lagi við næstu námsskrárbreytingar, verði hætt að meta 30 ECTS einingar úr BS námi upp í MS nám. Því er áhugasömum sem vilja nýta sér meistaranámið eins og það er núna, þ.e. að fá metnar allt að 30 einingar úr BS námi sínu, að uppfylltum skilyrðum, bent á að kynna sér námsframboð, inntökuskilyrði og umsóknarfresti á heimasíðu Háskólans.
Þessar breytingar taka gildi frá og með skólaárinu 2025-2026. Hins vegar er vert að taka fram að þeir sem hefja nám til diplómaprófs eða á meistarastigi fyrir 1. ágúst 2025 munu þó eiga þess kost að ljúka náminu samkvæmt því námsskipulagi sem í gildi var við upphaf náms. Eindagi umsókna fyrir vorönn 2025 er 15. október nk.
Hjúkrunarfræðingar eru hvattir til að fylgjast vel með breytingum á námi og nýta sér það nám sem í boði er. Einnig viljum við benda þeim á sem hafa hug á meistaranámi í nánustu framtíð að kynna sér hvaða reglur gilda um mat á fyrra námi og fyrningu námskeiða. Við í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild munum eftir sem áður, upplýsa hjúkrunarfræðinga um námsframboð og breytingar í framtíðinni og bendum á heimasíðu deildarinnar, www.hjukrun.hi.is.