Skip to main content
6. febrúar 2025

Frændafundur í Færeyjum í maí – kallað eftir ágripum

Frændafundur í Færeyjum í maí – kallað eftir ágripum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Íslensk-færeyska ráðstefnan Frændafundur 12 verður haldin í Þórshöfn í Færeyjum 29.-31. maí næstkomandi. Þeir sem hafa áhuga á að flytja fyrirlestur á ráðstefnunni eru vinsamlegast beðnir um að senda útdrátt (ca. 250 orð) á zakarish@setur.fo (Zakaris Svabo Hansen) í síðasta lagi 1. mars.

Frændafundur er þverfræðileg ráðstefna þar sem markmiðið er að leiða saman íslenska og færeyska fræðimenn á ólíkum sviðum og skapa ný tækifæri til rannsóknasamstarfs milli þessara frændþjóða.

Yfirskrift Frændafundar er að þessu sinni „Sjálfbærni sem áttaviti – Hvernig birtist hugtakið sjálfbærni í ólíkum vísindagreinum?“ Yfirskriftinni er ætlað að fanga mikilvægt viðfangsefni í háskólasamfélaginu en væntanlegir fyrirlesarar geta einnig boðið fram fyrirlestra um önnur efni sem tengjast löndunum tveimur, Íslandi og/eða Færeyjum. 

Fyrirlestrum á ráðstefnunni verður raðað saman í málstofur um tiltekin efni eins og kostur er. Fyrirlestrarnir verða haldnir á færeysku, íslensku, ensku eða norrænu meginlandsmáli (dönsku, norsku eða sænsku). Fræðimenn, nemendur og aðrir geta sent tillögur að fyrirlestrum á ráðstefnunni en gert er ráð fyrir hver fyrirlestur verði 30 mínútur að spurningum meðtöldum. 

Nánari upplýsingar um Frændafund 12 eru á fraendafundur.hi.is en þeim sem hafa spurningar um ráðstefnuna er vinsamlegast bent á að hafa samband við formann Færeyjanefndar HÍ, Jóhannes Gísla Jónsson (jj@hi.is).

Gestir á Frændafundi í HÍ 2022