Skip to main content
17. apríl 2019

Fjórtán nemendur til sumarnáms í Asíu

Fjórtán nemendur Háskóla Íslands halda til náms við fjóra samstarfsskóla háskólans á Indlandi, í Kína og Suður-Kóreu sumarið 2019. Sífellt fleiri nemendur nýta sér tækifæri á að stunda sumarnám við samstarfsskóla Háskóla Íslands um heim allan.

Þrír nemendur fara í sumarnám við Nordic Centre China (NCC) sem er samnorræn menntamiðstöð við Fudan-háskóla í Sjanghæ. Fudan er almennt álitinn einn af þremur virtustu háskólum Kína. HÍ er aðili að NCC ásamt 26 öðrum norrænum háskólum. Mikill metnaður er lagður í námskeiðin og eru vettvangsferðir í stórfyrirtæki og stofnanir hluti af náminu. Takmarkaður fjöldi nemenda við aðildarskólana kemst að á hverju ári. 

Fjórir nemendur halda til náms við Nordic Centre India (NCI) sem staðsett er í Nýju-Delí í Indlandi. NCI hefur milligöngu um þátttöku nemenda frá norrænum aðildarskólum í sumarnámskeiðum við nokkra háskóla á Indlandi sem eru m.a. í indverskum fræðum, hindí og umhverfismálum. Nemendurnir fjórir við Háskóla Íslands kusu allir að sækja námskeið í jafnréttisfræðum við University of Hyderabad.

Þrír nemendur fara í Tsinghua-háskóla í Peking í Kína. Skólinn er almennt talinn fremsti rannsóknaháskóli Kína og í 17. sæti á heimsvísu samkvæmt QS-styrkleikaröðuninni. Sjö námskeið eru í boði sem eru m.a. á sviði umhverfismála, alþjóðasamskipta og kynjafræða. Boðið er upp á námsferðir og ýmsa viðburði í þeim tilgangi að nemendur kynnist Pekingborg og nágrenni. 

Fjórir nemendur halda í sumarnám við Sungkyunkwan-háskóla (SKKU) í Seúl í Suður-Kóreu. SKKU heldur árlega fjögurra vikna sumarnámskeið þar sem nemendur taka námskeið á ýmsum fræðasviðum, m.a. í kóresku máli og fræðum, undir leiðsögn kennara við SKKU og gestakennara frá virtum háskólum sem koma víðs vegar að. 

 

 

Hluti hópsins sem heldur utan í sumarnámið ásamt Jóni Atla Benediktssyni, rektor Háskóla Íslands