Fjölþjóðlegur vinnufundur Big Picture haldinn í Eirbergi

Þriðji fjölþjóðlegi vinnufundur #BigPicture verkefnisins fór fram í Reykjavík, dagana 19. og 20. mars 2025. Fundurinn var haldinn í Eirbergi, þar sem Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild Háskóla Íslands er til húsa. Meginmarkmið verkefnisins er að þróa námskeið sem verður 8 ECTS einingar fyrir hjúkrunarfræðinga til að auka færni þeirra í að framkvæma heildrænt öldrunarmat. Í verkefninu er gerð greining á þáttum heildræns öldrunarmats um leið og byggt verður á gagnreyndum starfsháttum og nýjungum í náms- og kennsluaðferðum, þar á meðal stafrænum aðferðum. Big Picture verkefnið hlaut veglegan 3 ára styrk frá ESB: Erasmus Alliances for Innovation: Alliances for Education and Enterprises.
Fulltrúar frá öllum þátttökulöndum verkefnisins tóku þátt í vinnufundinum, samtals 28 manns. Lönd og háskólar sem taka þátt í verkefninu eru: Turku University of Applied Sciences TURKU, Finnlandi; Åland University of Applied Sciences, Álandi; Riga Stradins University, Lettlandi; Tallinn Health Care College, Eistlandi; University of Thessaly, Grikklandi; Southwest Finland Hospital District (VARHA), Finnlandi; Nosileia Tora, Grikklandi. Nosileia Tora er heimaþjónustufyrirtæki í Aþenu; LudusXR, Danmörku, sem er leikja- og hugbúnaðarþróunarfyrirtæki.
Verkefninu er stýrt af UAS Háskólanum í Turku en þeir sem eru fulltrúar Háskóla Íslands í verkefninu eru Ingibjörg Hjaltadóttir, prófessor, Sigrún Sunna Skúladóttir, lektor, Hlíf Guðmundsdóttir, aðjúnkt og sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala, Sigrún Bjartmarz, aðjúnkt og sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala og Elfa þöll Grétarsdóttir, sérfræðingur í hjúkrun á Landspítala.
Vinnudagarnir tókust vel og fóru í að samræma aðgerðir og finna árangursríkustu leiðina áfram í þróun verkefnisins. Íslenski hópurinn stýrir verkefninu árið 2025, sem felst í því að búa til fyrirlestra og annað kennsluefni.
Að fundinum loknum heimsóttu þátttakendur Sky Lagoon, þar sem þeir gátu notið heita vatnsins. Þriðja daginn var síðan í boði dagskrá þar sem þátttakendur hittu Jón Grétar Sigurjónsson, fræðslustjóra Heilbrigðisvísindasviðs HÍ og heimsóttu HERMÍS, sem er sameiginlegt hermi- og færnisetur Landspítala og HÍ. Þar áttu fulltrúarnir viðræður við Maríu Lenu Sigurðardóttur, verkefnastjóra hermisetursins.
Hópurinn sem tók þátt í vinnufundinum á Íslandi 19. og 20. mars, fyrir framan Eirberg