Fjölmennt á Hjúkrun í fararbroddi 2016

Tæplega fjögur hundruð þátttakendur sóttu ráðstefnuna „Hjúkrun í fararbroddi“ sem Rannsóknastofnun í hjúkrunarfræði (RSH) stóð fyrir í Stakkahlíð í gær. Á ráðstefnunni var greint frá 35 spennandi rannsóknum í hjúkrunar- og ljósmóðurfræði í átta málstofum.
Ráðstefnuna setti Jóhanna Bernharðsdóttir, lektor við Hjúkrunarfræðideild og formaður stjórnar Rannsóknastofnunar í Hjúkrunarfræði. Helga Jónsdóttir, forseti Hjúkrunarfræðideildar, kynnti nýjar áherslur í námi við deildina og Sóley Bender, formaður stýrihóps um Heilsutorg háskólanema, flutti erindi um Heilsutorgið. Eins og fyrr segir voru erindin á ráðstefnunni flutt í átta málstofum og var yfirskrift þeirra: klínísk hjúkrun, meðganga og fæðing, verkir og verkjameðferð, fjölskylduhjúkrun, heilbrigðisþjónusta, langvinnir sjúkdómar, sálfélagsleg líðan og starfsþróun. Ráðstefnugestum gafst einnig kostur á að sitja spennandi vinnusmiðjur sem fram fóru samhliða fyrirlestrunum. Þá stóð fjölbreytt veggspjaldasýning yfir allan daginn. Hér má skoða ágrip allra rannsókna sem kynnt voru á ráðstefnunni.
Úthlutað var úr minningarsjóði Guðrúnar Marteinsdóttur en einn tilgangur sjóðsins er að veita nýútskrifuðum hjúkrunarfræðingum viðurkenningu fyrir góðan námsárangur á sviði heilsugæsluhjúkrunar. Styrkinn hlaut Sigríður Lilja Magnúsdóttir fyrir framúrskarandi námsárangur í heilsugæsluhjúkrun í BS-námi en viðurkenninguna afhenti Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands. Sigríður Lilja vann ýmis verkefni í námskeiðinu Heilsugæsluhjúkrun. Hún skrifaði til að mynda forvarnarverkefni um netfíkn og fékk góða umsögn fyrir það. Einnig vann Sigríður Lilja lífstílsverkefni um reykingar á meðgöngu þar sem hún studdist við heilsueflingarlíkan Nolu Pender.
Ráðstefnan „Hjúkrun í fararbroddi“ var tileinkuð Guðrúnu Marteinsdóttur, fyrrverandi dósent við námsbraut í hjúkrunarfræði og einum af fyrstu fastráðnu kennurum námsbrautarinnar. Guðrún kenndi heilsugæsluhjúkrun og stjórnun og var frumkvöðull meðal íslenskra hjúkrunarfræðinga á sviði heilsugæslu- og fjölskylduhjúkrunar. Guðrún var í doktorsnámi við Háskólann á Rhode Island, þar sem hún vann að rannsókn um áhugahvöt meðal kvenna til líkamsþjálfunar, þegar hún lést árið 1994.
