Skip to main content
11. apríl 2016

Fjölmenni á málstofu um skóla margbreytileikans

Fjölmenni á málstofu um skóla margbreytileikans  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Fullt var út úr dyrum á málstofu um skóla margbreytileikans og íslenska skólastefna sem haldin var föstudaginn 1. apríl síðastliðinn við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

Fjölbreyttur hópur tók til máls á málstofunni. Dóra S. Bjarnason, prófessor við Menntavísindasvið, hélt fyrsta erindið undir yfirskriftinni: Hvað vitum við og hvað ekki? Og hvert stefnum við og hvert ekki?

Því næst flutti Kristín Erla Harðardóttir, forstöðumaður Menntavísindastofnunar fyrirlestur um gögn Hagstofu Íslands sem snúa að skólastarfi án aðgreiningar og framgang stefnunnar í grunnskólum.

Guðni Olgeirsson, sérfræðingur hjá mennta- og menningarmálaráðuneytinu greindi frá mati Evrópumiðstöðvar um nám án aðgreiningar og sérþarfir á framkvæmd skólastefnunnar hér á landi. Starfsemi miðstöðvarinnar snýst í meginatriðum um hvernig bæti megi árangur allra nemenda og auka þannig möguleika þeirra á að taka virkan þátt í samfélaginu.

Berglind Rós Magnúsdóttir, lektor við Menntavísindasvið rakti ráðandi strauma og stefnur innan rannsóknarsviðsins í sínum fyrirlestri. Berglind sagði það mikilvægt að sveitarfélög og ríkisvaldið velti fyrir sér samverkandi áhrifum af gildandi stefnum sínum, s.s. hvers konar upplýsingum er dreift um skólana og hvernig þær upplýsingar hafa áhrif á fagmennsku og inngildingu.

Kristín Björnsdóttir, dósent við Menntavísindasvið og Haukur Guðmundsson, háskólanemi héldu lokaerindið sem fjallaði um skóla án aðgreiningar á öllum skólastigum.

Fundarstjóri var Ólafur Páll Jónsson, prófessor og deildarforseti Uppeldis- og menntunarfræðideildar.

Um Rannsóknarstofu skóla án aðgreiningar

Rannsóknarstofa um skóla án aðgreiningar var stofnuð árið 2008. Stofan hefur m.a. það hlutverk að efla og stunda rannsóknir og þróunarstarf á sviði skóla án aðgreiningar og veita ráðgjöf á til skóla, stofnana og stefnumótenda.

Rannsóknarstofan hefur staðið fyrir einu til tveimur málþingum á ári sem hafa iðulega verið vel sótt. Enn fremur gaf stofan út kennslufræðibókina Nám fyrir alla árið 2012.

Vefsíða stofunnar

Stakkahlíð