Fjölbreyttar leiðir til læsis í forgrunni
Menntavísindasvið stendur fyrir ráðstefnu um læsi í víðum skilningi fimmtudaginn 8. september nk. við Háskóla Íslands. Ráðstefnan ber heitið „Fjölbreyttar leiðir til læsis“ og er henni ætlað að skapa vettvang fyrir sérfræðinga, fræðimenn og kennara til að kynna verkefni er lúta að læsi.
Aðalfyrirlesarar ráðstefnunnar verða Noella Mackenzie, dósent í læsi við Charles Sturt háskóla, Ástralíu, Hrafnhildur Ragnarsdóttir, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands, og Jón Torfi Jónasson, prófessor við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Auk aðalfyrirlestra verða málstofur þar sem m.a. verður greint frá gagnvirkum lestri, læsi í leikskólum, mikilvægi orðaforða, nýju lestrarnámskeiði, viðhorfi barna til lestrar og tækni og ýmsum árangursríkum aðferðum í námi og kennslu.
Setning ráðstefnunnar er í höndum Jóhönnu Einarsdóttur, forseta Menntavísindasviðs, og Arnór Guðmundsson, forstjóri Menntamálastofnunar, slítur henni.
Ráðstefnan er öllum opin og aðgangur er ókeypis.