Fjarkynning á framhaldsnámi – Viðræður hafnar við Hótel Sögu
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á stúdenta og starfsfólk í dag (19. mars):
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Stefna Háskóla Íslands er sú að öll meginstarfsemi skólans verði byggð upp hér á háskólasvæðinu í Vatnsmýrinni. Því hefur verið lagður þungi á flutning Menntavísindasviðs hingað í framtíðarhúsnæði. Nú í vikunni hófust viðræður um kaup á Hótel Sögu sem er afar vel staðsett í hjarta háskólasvæðisins og í nágrenni við Háskólabíó, VR-húsin, Tæknigarð, Veröld - Hús Vigdísar og Hús íslenskunnar sem nú er að rísa. Austan Suðurgötunnar eru svo aðrar byggingar tengdar með undirgöngum.
Þótt Hótel Saga krefjist endurbóta og breytinga til að laga hana að skólastarfinu, þá liggur fyrir að það er bæði hagkvæmara og fljótvirkara fyrir Háskólann að festa kaup á byggingunni í núverandi mynd en að ráðast í nýbyggingu fyrir Menntavísindasvið frá grunni. Auk þess liggur fyrir að eignin getur nýst fyrir margvíslega aðra starfsemi Háskólans og þannig vinnst margt í senn. Stefnt er að því að ljúka viðræðum á næstunni, en á þessu stigi er ekki hægt að slá neinu föstu um niðurstöðu þeirra.
Háskólanám er undirstaða farsældar og framfara og framhaldsnám við skólann býr nemendur markvisst undir mikilvæga þátttöku í atvinnu- og þjóðlífi. Ég vek athygli á því að Háskóli Íslands mun kynna um hundrað leiðir í framhaldsnámi í streymi á netinu í næstu viku. Með þessu vill skólinn gera öllum kleift að kynna sér námsframboð skólans án tillits til búsetu. Ég hvet ykkur, kæru grunnnemar, til að kynna ykkur vandlega þá kosti sem ykkur standa til boða til frekara náms.
Enn er óvíst hvenær notkun á mikilvægum kennslustofum, fyrirlestrasölum, lesrýmum og skrifstofum á jarðhæð Háskólatorgs og Gimlis getur hafist aftur eftir vatnsflóðið í janúar en áfram er unnið að því að meta orsakir og umfang tjónsins. Þetta er forsenda þess að ráðast megi í framkvæmdir við lagfæringar og endurnýjun á búnaði á Háskólatorgi og í öðrum byggingum Háskólans sem urðu fyrir skemmdum. Háskóli Íslands getur þó almennt ekki ráðist í framkvæmdir fyrr en dómkvaddir matsmenn hafa lokið sinni vinnu. Fyrr í vikunni var haldinn fyrsti matsfundurinn og verður reynt að hraða málinu eins og frekast er unnt svo viðkomandi kennslustofur komist í notkun þegar kennsla á haustmisseri hefst.
Í vikunni var sannkallað vorveður í borginni og víða um land sem var svo sannarlega upplífgandi í heimsfaraldri og jarðhræringum á Reykjanesi. Núna um helgina er langþráð vorjafndægur þegar dagur og nótt verða jafnlöng. Fram undan eru því fleiri og enn bjartari dagar af þeim toga sem við fengum að kynnast í vikunni.
Njótum helgarinnar, kæru nemendur og samstarfsfólk, sem best við getum. Hugum hvert að öðru, hlúum líka að okkur sjálfum og förum að öllu með gát.
Jón Atli Benediktsson, rektor“