Skip to main content
27. september 2023

Fimmtíu ár síðan kennsla í hjúkrunarfræði hófst við HÍ

Fimmtíu ár síðan kennsla í hjúkrunarfræði hófst við HÍ - á vefsíðu Háskóla Íslands

Um þessar mundir eru 50 ár síðan kennsla hófst við námsbraut í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands og verður því fagnað með glæsilegri hátíð föstudaginn 29. september í Aðalbyggingu skólans. Mikið vatn hefur runnið til sjávar síðan námið var sett á laggirnar og í dag menntar Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild nemendur til fjölbreyttra starfa innan heilbrigðiskerfisins eins og þær Sóley S. Bender, prófessor emerita og nemandi í fyrsta árgangi hjúkrunarfræðinámsins, og Lovísa Snorradóttir, nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur frá HÍ, ræða nánar hér að neðan.

Nám í hjúkrunarfræði hófst við Háskóla Íslands haustið 1973 en áður hafði hjúkrunarfræði verið kennd við Hjúkrunarskóla Íslands og gerði það reyndar  fram til ársins 1986 þegar sá skóli var lagður niður. Fram kemur í aldarsögu Háskóla Íslands að námsbrautin hafi fyrst um sinn lotið bráðabirgðastjórn og heyrt undir Læknadeild. Engir fastráðnir kennarar voru fyrstu árin og var námsbrautin í raun rekin af hugsjónafólki sem var jafnframt í fullu starfi utan skólans. 

Árið 1976 tók Ingibjörg R. Magnúsdóttir við stöðu námsbrautarstjóra og ári síðar varð Marga Thome fyrsti fastráðni kennarinn þegar hún var ráðin lektor í hjúkrunarfræði. Við þróun námsbrautarinnar, gerð námskrár og kennslu þessi fyrstu ár var jafnframt leitað stuðnings frá sérfræðingum frá Bandaríkjunum og Kanada auk þess sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin veitti mikilvægan stuðning.

Framan af átti greinin sér ekki samastað nærri háskólasvæðinu en frá árinu 1986 hefur Eirberg, sem áður hýsti Hjúkrunarskóla Íslands, verið aðsetur hjúkrunarfræðinnar á Landspítalalóðinni þar sem finna má skrifstofur, aðstöðu nemenda og kennsluaðstöðu með ört stækkandi færni- og hermisetri. 

Afar góður grunnur lagður í upphafi 

Tuttugu og fimm konur voru í fyrsta hópnum sem hóf nám í hjúkrunarfræði við HÍ haustið 1973 og í þeirra hópi var Sóley S. Bender sem er meðal þeirra sem taka til máls á afmælishátíðinni. Hún átti síðar eftir að starfa um áratugaskeið við Háskólann sem kennari og vísindamaður en upphaflega stefndi hugur hennar annað. „Við vorum nokkrar úr mínum bekk í Menntaskólanum í Reykjavík sem höfðum áhrif hvor á aðra. Ég var reyndar búin að ætla mér að fara í sjúkraþjálfun í Noregi og til að undirbúa mig undir það vann ég á Grensásdeild Borgarspítalans allt sumarið 1973. Þar kynntist ég erfiðum aðstæðum fólks eftir veikindi eða slys sem þurfti á endurhæfingu að halda,“ segir Sóley um ástæður þess að hún valdi hjúkrunarfræði á sínum tíma.

Sóley S. Bender, prófessor emerita og nemandi í fyrsta árgangi hjúkrunarfræðinámsins.

Sóley segir að afar góður grunnur hafi verið lagður að náminu frá upphafi og margt af því sé enn við lýði. „En auðvitað, á þessum fyrstu árum, var námið mjög mikið í mótun. Með náminu var lögð rík áhersla á gagnrýna og sjálfstæða hugsun og vinnubrögð sem á við enn í dag enda grundvallarþættir allrar háskólakennslu. Bæði stjórnun og kennslufræði voru mikilvægar námsgreinar. Það vantaði mjög mikið kennara í ýmsum námsgreinum og því fengnir erlendir kennarar til að sjá um ákveðna kennslu. Má þar nefna námskeiðið í hjúkrunarstjórnun en Margaret E. Hooton, prófessor við hjúkrunarskólann við McGill University í Kanada, hafði umsjón með því. Í minningarorðum um hana var sagt: „She was able to challenge students to think critically and unconventionally“, segir Sóley enn fremur.

Mættu mikilli andstöðu á fyrstu árunum

Sóley var jafnframt í fyrsta útskriftarárganginum 1977 og eftir að hafa starfað í nokkur ár á Landspítalanum og Borgarspítalanum en að auki kennt í ár við hjúkrunarskóla í Nepal fór hún utan í meistaranám við University of Minnesota í  Bandaríkjunum. Eftir heimkomuna fór hún fljótlega að kenna við námsbraut í hjúkrunarfræði, var lektor, dósent og síðast prófessor árið 2009 þar til hún lauk formlega störfum við skólann nú í sumar. Sóley sérhæfði sig snemma í kynheilbrigði og hefur unnið að fjöldamörgum rannsóknum og verkefnum tengdum því. Er óhætt að segja að þekking hennar og störf öll hafi haft afgerandi áhrif á stefnumörkun stjórnvalda og kynheilbrigðisþjónustu á Íslandi.

fyrsti utskriftarargangurinn

Fyrsti útskriftarárgangurinn í hjúkrunarfræði árið 1997.

Aðspurð um hvað væri minnistætt frá námsárunum nefnir hún að þær skólasysturnar hefðu oft þurft að berjast fyrir tilverurétti sínum. „Við sem tilheyrðum fyrstu árgöngunum sættum mikilli, óverðskuldaðri, gagnrýni hjúkrunarstéttarinnar sem ekki var tilbúin að sætta sig við að komið væri grunnnám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands en ekki framhaldsnám. Auk þess fengum við ósjaldan spurningar frá ýmsum aðilum í samfélaginu um það hvort það væri nauðsynlegt að kenna hjúkrun á háskólastigi,“ bætir Sóley við.

Rannsóknir og framhaldsnám eflst mjög

Sem fyrr segir heyrði hjúkrunarfræðinámið undir Læknadeild fyrstu áratugina en á aldamótaárinu 2000 varð námsbrautin að sjálfstæðri deild, Hjúkrunarfræðideild þar sem bæði hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði var kennd. Ljósmóðurfræðin hafði verið færð inn í Háskólann árið 1996 sem framhaldsnám á meistarastigi fyrir hjúkrunarfræðinga. Nafni deildarinnar var svo breytt árið 2022 í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. Með því að færa hjúkrunarfræði- og ljósmæðramenntun á háskólastig varð veruleg breyting á námi þessara starfsstétta hér á landi og óhætt er að segja að deilidin hafi jafnan verið í fremstu röð þegar kemur að grunnmenntun hjúkrunarfræðinga og ljósmæðra á Vesturlöndum. Um það vitna bæði úttektir og listar yfir bestu háskóla heims á afmörkuðum fræðasviðum. Deildin býður nú upp á meistaranám og doktorsnám í hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði auk grunnnáms í hjúkrunarfræði og framhaldsnám í heilbrigðisvísindum.

Nú starfa við deildina á fjórða tug fastráðinna kennara auk fjölda stundakennara og framhaldsnám við deildina hefur eflst mjög á síðustu árum og áratugum að sögn Sóleyjar. „Það sem hefur kannski breyst hvað mest á þessu tímabili er að mun fleiri kennarar eru með doktorsnám og rannsóknum á vegum kennara deildarinnar hefur fleygt fram sem hefur skilað sér inn í  kennsluna og við þróun á meistara- og doktorsnámi við deildina,“ segir Sóley. 

Við þetta má bæta að Ingibjörg R. Magnúsdóttir studdi þessa þróun með ráðum og dáð með því að leggja fjármuni í sjóð innan HÍ sem ætlað er að styrkja rannsóknir í hjúkrunar- og ljósmóðurfræðum. Styrkjum verður einmitt úthlutað úr sjóðnum á afmælishátíðinni 29. september. 

Frá kennslu í ljósmóðurfræði. Hjúkrunarfræðinám heyrði undir Læknadeild fyrstu áratugina en á aldamótaárinu 2000 varð námsbrautin að sjálfstæðri deild, Hjúkrunarfræðideild þar sem bæði hjúkrunarfræði og ljósmóðurfræði var kennd. Ljósmóðurfræðin hafði verið færð inn í Háskólann árið 1996 sem framhaldsnám á meistarastigi fyrir hjúkrunarfræðinga. Nafni deildarinnar var svo breytt árið 2022 í Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild. MYND/Kristinn Ingvarsson

Hjúkrunarfræðingar stóðu í framlínunni í COVID-19-faraldrinum

Samhliða breytingum á námi í hjúkrunarfræði hafa orðið miklar breytingar í heilbrigðiskerfinu og aðspurð hvaða breytingar hafi haft jákvæðust áhrif á störf hjúkrunarfræðinga og jafnvel sjúklinga bendir Sóley á að mikil breyting hafi orðið við það að sameina spítalana á höfðborgarsvæðinu en fólk hafi haft skiptar skoðanir á því. „Einnig hefur með árunum verið vaxandi áhersla á geðheilbrigðismál og samsetning þjóðarinnar hefur verið að breytast sem kallað hefur á öflugri öldrunarþjónustu á heimilum og utan þeirra. Heilsugæslan hefur einnig verið í mikilli þróun og fengið stór verkefni í fangið. Á örlagatímum eins og í heimsfaraldrinum stigu hjúkrunarfræðingar fram og sýndu þjóðinni hversu öflugir þeir eru. Það sem vakti fyrir þeim var heilsa þjóðarinnar,“ bendir Sóley á.

Hún bætir við að út frá sjónarhorni hjúkrunarfræðinga telji hún að það sem skiptir mestu máli varðandi vellíðan og ánægju í starfi þeirra sé að vera vel metinn, „hafa tök á því að þróa sig í starfi og fá tækifæri og stuðning til að prófa nýja hluti. Gott samstarf við aðrar heilbrigðisstéttir er einnig dýrmætt til að leysa ýmis vandamál skjólstæðinga okkar. Ánægja hjúkrunarfræðinga í starfi skilar sér í bættri heilbrigðisþjónustu.“

Vinnur að nýrri handbók um kynlíf fyrir unga karlmenn

Þótt Sóley hafi formlega lokið störfum innan Háskóla Íslands og sé komin í virðulegan hóp emerita við skólann er hún enn með mörg járn í eldinum. „Ég mun halda áfram að leiðbeina þeim meistara- og doktorsnemum sem ég er með. Ég hef tímabundið tekið við formennsku í Samtökum um kynheilbrigði og við stefnum að því að komi út á þessu ári nýtt alhliða námsefni fyrir kennara og skólahjúkrunarfræðinga í framhaldsskólum til að nýta í kennslu um kynheilbrigði á því skólastigi. Jafnframt er ætlunin að gefa út á árinu rafræna handbók fyrir unga karlmenn sem byggist á rannsóknum mínum og meistaranema minna og nefnist hún Ertu klár í kynlífi? Ég mun því vera áfram virk á mínu fræðasviði en mun í vaxandi mæli geta notið þess að vera með fjölskyldunni og gefa mér tíma til að njóta náttúrunnar,“ segir Sóley.

Þegar Sóley er beðin að horfa til baka yfir náms- og starfsferilinn og er spurð hvort hún hefði viljað breyta einhverju eða gera öðruvísi persónulega og hvaða ráð hún hafi til hjúkrunarfræðinga sem eru að hefja ferilinn nefnir hún m.a. að hún hefði viljað ljúka doktorsnámi fyrr. Það hafi hins vegar verið mikill hörgull á kennurum og því erfitt um vik. „Hvað viðkemur framtíðinni og heilræðum þá vildi ég gjarnan sjá mun fleiri hjúkrunarfræðinga með BS-próf fara í meistara- og doktorsnám til annarra landa, t.d. til Bandararíkjanna og Kanada. Það gefur einstaklingnum ýmis tækifæri til að kynnast ólíku heilbrigðiskerfi og nemendum frá öðrum löndum og takast á við ýmsar áskoranir sem eru þroskandi fyrir hann. Það skapar einnig víðsýni og fjölbreytileika. Ég vil því hvetja þá sem ljúka BS-prófi að fara í framhaldsnám erlendis,“ segir Sóley.

Fann sína réttu hillu í hjúkrunarfræðinni

Ein af þeim sem lauk BS-prófi í hjúkrunarfræði frá Háskóla Íslands síðastliðið vor og er því að hefja sinn hjúkrunarferil er Lovísa Snorradóttir. Líkt og í tilviki Sóleyjar stefndi hugur Lovísu annað í fyrstu. „Eftir menntaskóla hóf ég nám í heilbrigðisverkfræði við Háskólann í Reykjavík og lauk þaðan BS-prófi vorið 2018. Námið var skemmtilegt og hefur reynst mér ótrúlega vel en þegar upp var staðið fann ég að ég var ekki alveg staðsett á réttu hillunni í lífinu. Ég tók þá eitt ár í námspásu og fór að vinna á hjúkrunarheimili. Mamma er hjúkrunarfræðingur og pabbi tæknifræðingur og ætli ég hafi ekki viljað prófa báðar hliðar enda miklar fyrirmyndir í mínu lífi. Þarna fannst mér ég finna mína réttu hillu,“ segir Lovísa sem hóf nám í hjúkrunarfræði haustið 2019. „Því sé ég svo sannarlega ekki eftir!“

Lovisa

Lovísa Snorradóttir, nýútskrifaður hjúkrunarfræðingur.

Aðspurð segir Lovísa að það hafi komið henni á óvart hversu fjölbreytt og skemmtileg hjúkrunarfræðin getur verið. „Hjúkrun er ekki eitthvað einsleitt starf þar sem allir dagar eru eins. Maður veit aldrei hvað dagurinn býður upp á og það finnst mér svo skemmtilegt þótt það vissulega geti líka verið krefjandi,“ bendir hún á.

Fékk verðlaun fyrir lokaverkefni

Þá segist Lovísa hafa kynnst og lært af einstöku fólki í náminu. „Ekki einungis samnemendum og kennurum innan deildarinnar heldur einnig samstarfsfólki innan spítalans og annarra heilbrigðisstofnana. Á námstímanum höfum við svo farið í gegnum fjölmargar verknámslotur og standa þær líka upp úr að mínu mati. Hjúkrunarfræðin býður upp á svo ótrúlega fjölbreyttan starfsvettvang að námi loknu og því gott að fá innsýn í og geta mátað sig við mismunandi störf hjúkrunarfræðinga yfir námstímann,“ segir Lovísa sem starfar á hjartadeild 14EG á Landspítalanum við Hringbraut og hefur gert það samhliða námi í nærri þrjú ár.

„Ég er þakklát fyrir reynsluna sem ég hef öðlast þar. Ég hef lært ótrúlega mikið og kynnst fullt af frábæru samstarfsfólki sem svo sannarlega hvetur mann áfram og eru miklar fyrirmyndir í starfi. Eftir útskrift hef ég einnig setið á stjórnarfundum Rannsóknar- og þróunarseturs um ICNP á Íslandi og er það í tengslum við lokaverkefnið mitt við hjúkrunarfræðideildina,“ segir Lovísa en hún hlaut m.a. viðurkenningu frá Hjúkrunar- og ljósmóðurfræðideild fyrir verkefnið.

ICNP (International Classification for Nursing Practice) er alþjóðlegt flokkunarkerfi og fagorðaskrá sem þróað er af Alþjóðaráði hjúkrunarfræðinga og er ætlað fyrir staðlaða skráningu hjúkrunar. Að sögn Lovísu hefur Embætti landlæknis ákveðið að innleiða kerfið hérlendis til skráningar á hjúkrun og mikil undirbúningsvinna hefur farið í það. „Þeirri vinnu er þó ekki lokið og mun töluverð vinna þurfa að eiga sér stað áður en kerfið verður endanlega tekið upp. Það verður því áhugavert að sjá hvernig þessi vinna mun halda áfram að þróast og spennandi að fá að taka þátt í þeirri vinnu,“ segir Lovísa.

kennsla i hjukrunarfraedi

Frá kennslu í hjúkrunarfræði.

Aðspurð hvort hugur hennar stefni til frekara náms í hjúkrunarfræði segir Lovísa það aldrei að vita. Hins vegar sé mikilvægt að hennar mati að staldra við að loknu grunnnámi og máta sig við starfsumhverfið sem hún hafi valið sér áður en ákvörðun um frekari sérhæfingu í starfi sé tekin. „Hjúkrunarfræðin býður upp á svo ótrúlega fjölbreyttan starfsvettvang og finnst mér því mikilvægt að fá tilfinningu fyrir því hvað maður raunverulega vill fást við áður en til frekara náms kemur. Eins og staðan er í dag stefni ég á áframhaldandi nám innan hjúkrunarfræðinnar en tíminn verður að fá að leiða það í ljós innan hvaða sviðs það verður,“ segir hún að endingu. 

Hægt er að kynna sér afmælisdagskrá hjúkrunarfræðinnar í Hátíðasal Aðalbyggingar hér.

Skráning á viðburðinn

Sóley S. Bender og Lovísa Snorradóttir