Fimm nýir lektorar við Menntavísindasvið
Fimm nýir lektorar hófu nýverið störf við Menntavísindasvið Háskóla Íslands. Lektorarnir eru ráðnir til starfa við Deild faggreinakennslu, Deild kennslu- og menntunarfræði og Deild menntunar og margbreytileika.
Eftirtaldir starfsmenn voru ráðnir:
Ásta Jóhannsdóttir er nýr lektor í þroskaþjálfafræði við Deild menntunar og margbreytileika. Ásta lauk BA-prófi í hagfræði, heimspeki og stjórnmálafræði frá Háskólanum á Bifröst, MA-prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands og diplómaprófi í hagnýtum jafnréttisfræðum frá sömu stofnun. Í fyrra lauk hún doktorsprófi í félagsfræði frá Háskóla Íslands og bar doktorsverkefnið hennar heitið: Kynjaðar sjálfsmyndir á Íslandi, landi kynjajafnréttis – Möguleikar og takmarkanir á birtingu kyngervis meðal ungs fólks í Reykjavík 2012-2016. Ásta hefur sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands og Háskólann á Bifröst.
Ingibjörg Ósk Sigurðardóttir er nýr lektor í leikskólafræði við Deild kennslu- og menntunarfræði. Ingibjörg lauk B.Ed.-prófi í leikskólafræði frá Kennaraháskóla Íslands og MA-prófi í menntunarfræði frá Háskóla Íslands. Fyrr á þessu ári lauk Ingibjörg doktorsprófi frá sömu stofnun og bar doktorsverkefnið heitið: Starfsþróun leikskólakennara í gegnum samstarfsrannsókn – Að skapa sameiginlegan skilning og orðræðu varðandi gildi sem leikskólamenntun byggir á. Ingibjörg hefur sinnt kennslu á sviði leikskólafræði við Háskóla Íslands frá árinu 2013.
Íris Ellenberger er nýr lektor í samfélagsgreinum við Deild faggreinakennslu. Hún lauk doktorsprófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands árið 2013 og bar doktorsverkefnið hennar heitið: Danskir innflytjendur á Íslandi 1900-1970. Félagsleg staða, samþætting og þverþjóðleiki. Í rannsóknum sínum hefur Íris aðallega lagt stund á sögu fólksflutninga og hinsegin sögu. Íris starfaði sem stundakennari í sagnfræði, menningarfræði og Norðurlandafræði við Háskóla Íslands frá árinu 2013. Þá hefur hún sinnt kennslu í tungumálum, félagslegu réttlæti og tónlist á grunn- og framhaldsskólastigi.
Rannveig Björk Þorkelsdóttir er nýr lektor í leiklist við Deild faggreinakennslu. Rannveig lauk B.Ed.-prófi í grunnskólakennarafræði frá Kennaraháskóla Íslands, diplómaprófi í uppeldis- og menntunarfræði, MA-prófi í sömu grein og MA-prófi í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Árið 2016 lauk Rannveig doktorsprófi í kennslufræði leiklistar frá Norska tækni- og vísindaháskólanum (NTNU) og bar doktorsverkefni hennar heitið: Understanding drama teaching in compulsory education in Iceland. Rannveig hefur verið aðjunkt við Háskóla Íslands frá árinu 2016 en sinnti þar áður stundakennslu. Þá hefur Rannveig Björk áralanga reynslu af kennslu í grunnskóla og hefur auk þess gefið út tvær bækur.
Sara Margrét Ólafsdóttir er nýr lektor í leikskólafræði við Deild kennslu- og menntunarfræði. Sara lauk B.Ed.-prófi í leikskólafræði frá Kennaraháskóla Íslands og MA-prófi í menntunarfræði yngri barna frá Háskóla Íslands. Fyrr á þessu ári lauk Sara doktorsprófi frá sömu stofnun og bar doktorsverkefnið heitið: Viðhorf íslenskra leikskólabarna til leiks, reglna í leik og hlutverks leikskólakennara í leik þeirra. Sara hefur sinnt stundakennslu við Háskóla Íslands frá árinu 2013.
Allar hafa þær umtalsverða reynslu af leiðbeiningu lokaverkefna grunn- og framhaldsnema.
Menntavísindasvið býður þær allar hjartanlega velkomnar til starfa.