Fimm kennarar hlutu viðurkenningu fyrir framúrskarandi störf
Menntavísindasvið Háskóla Íslands veitti fimm kennurum viðurkenningar fyrir framúrskarandi störf við hátíðlega athöfn í Háskóla Íslands í dag. Verðlaunin eru afrakstur kynningarátakisins „Hafðu áhrif“ sem Menntavísindasvið Háskóla Íslands stóð fyrir á vormánuðum en þar gafst almenningi kostur á að tilnefna eftirminnilega kennara á vefsíðunni hafduahrif.is. Tilgangur átaksins var að vekja athygli þjóðarinnar á kennarastarfinu; hversu áhugavert og skemmtilegt það er og hversu mikil áhrif kennarar hafa á einstaklinga og samfélagið.
Viðtökurnar voru afar góðar en hátt í þúsund tilnefningar bárust. Valnefnd skipuð fulltrúum Háskóla Íslands, Kennarasambands Íslands og kennaranema fór yfir tilnefningarnar samkvæmt ákveðnum viðmiðum. Niðurstaðan var sú að veita fjórum framúrskarandi kennurum á leik-, grunn- og framhaldsskólastigi viðurkenningar fyrir framlag þeirra til kennslu. Í fyrsta sinn voru veitt sérstök hvatningarverðlaun til ungs kennara fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.
Eftirfarandi kennarar hljóta viðurkenningu að þessu sinni (valdar umsagnir sem bárust fylgja):
Gísli Hólmar Jóhannesson, Keili
„Gísla tókst á einstæðan máta að miðla stærðfræði á mannamáli og bjó yfir takmarkalausri þolinmæði við kennslu. Alla barnæskuna hafði mér verið talið trú um að ég gæti ekki lært stærðfræði. Eftir hans leiðsögn skil ég ekki bara stærðfræði heldur er með sterkari sjálfsmynd. Hann var alltaf boðinn og búinn að vera með aukatíma, hafði brennandi áhuga á efninu og hætti ekki fyrr en allir skildu viðfangsefnið. Mannbætandi snillingur sem var alltaf á vaktinni!“
Sara Diljá Hjálmarsdóttir, Höfðaskóla
„Sara Diljá kom ung til kennslu á Skagaströnd og tók við dóttur minni sem átti að baki erfiða skólagöngu. Sara var ekki lengi að vinna hana á sitt band og hefur dóttir mín blómstrað allar götur síðan. Hún er kraftmikill kennari, nær góðum tengslum við nemendur sína, er sannur vinur þeirra og sýnir þeim mikla gæsku. Hreint út sagt gull í gegn!“
Sigríður Ása Bjarnadóttir, Leikskólanum Teigaseli
„Ég ákvað að gerast leikskólakennari út af konu eins og Siggu Ásu. Hún er ein besta fyrirmynd sem ég hef haft í starfi mínu og er einstaklega vel liðin af öllum í nærumhverfinu, hvort sem um er að ræða samstarfsfólk, börn eða foreldra. Hún á skilið endalaust hrós fyrir störf sín og hefur allt það til brunns að bera sem einkennir góðan kennara!“
Valdimar Helgason, Réttarholtsskóla
„Maður einfaldlega vissi að í hverjum einasta tíma myndum við læra eitthvað nýtt hjá Valdimari. Fagmaður fram í fingurgóma sem kann þá list að vekja áhuga á námi. Hann kenndi mér gagnrýna og sjálfstæða hugsun og sýndi mér að nám getur verið virkilega skemmtilegt — staðreynd sem ég þekkti ekki áður. Hann hafði góða stjórn á bekknum og jafnvel uppreisnargjörnustu nemendur voru til friðs í tímum hjá honum. Valdimar er algjörlega einstakur kennari og áhrifavaldurinn í mínu lífi! “
Hvatningarverðlaun – Hafðu áhrif
Ingvi Hrannar Ómarsson hlýtur hvatningarverðlaun fyrir framsækin störf í þágu menntamála sem hafa vakið athygli á alþjóðavettvangi.
Ingvi Hrannar er fæddur í Reykjavík 1986. Hann er uppalinn á Sauðárkróki en fluttist ungur til Bandaríkjanna þar sem hann útskrifaðist frá McHenry High School í Illinois og lauk síðar stúdentsprófi frá Fjölbrautaskóla Norðurlands vestra.
Þaðan lá leið hans til Árósa í Danmörku í nám og að því loknu lagði hann stund á grunnskólakennarafræði við Háskóla Íslands (B.Ed.). Ingvi Hrannar hóf störf við Árskóla á Sauðárkróki eftir útskrift þar sem hann leiddi m.a. fyrsta iPad 1:1 verkefnið á landinu þar sem allir nemendur hans höfðu iPad í námi.
Ingvi Hrannar fluttist til Svíþjóðar árið 2013 og stundaði nám við Háskólann í Lundi og útskrifaðist með meistaragráðu í frumkvöðlafræðum. Að því loknu sneri hann aftur til Íslands og starfar nú sem kennsluráðgjafi í tækni, nýsköpun og skólaþróun hjá Sveitarfélaginu Skagafirði.
Störf Ingva hafa hlotið alþjóðlega athygli en hann hlaut æðstu viðurkenningu sem Google veitir kennurum, Google for Education Certified Innovator, og æðstu viðurkenningu Apple til kennara og menntafólks, en hún ber heitið Apple Distinguished Educator.
Á dögunum var Ingvi Hrannar útnefndur af HundrED sem einn af hundrað áhrifamestu kennurum í heiminum.
Ingvi Hrannar bloggar um menntamál á ingvihrannar.com auk þess að halda úti „Menntavarpi“, vikulegu hlaðvarpi um menntamál, ásamt því að tísta undir nafninu @IngviHrannar