Fá styrki til náms við Caltech í sumar
Tveir nemendur í grunnnámi við Háskóla Íslands hljóta í sumar styrk til að vinna tíu vikna verkefni við California Institute of Technology – Caltech í Pasadena í Kaliforníu í Bandaríkjunum. Nemendurnir sem halda til Caltech eru Ásgeir Tryggvason og Bergþór Traustason en þeir stunda báðir nám í verkfræðilegri eðlisfræði.
Þessum styrkjum er nú úthlutað í tíunda sinn en frá árinu 2008 hafa Háskóli Íslands og Caltech haft með sér skipulegt samstarf á sviði kennslu og rannsókna. Um er að ræða svokölluð SURF-verkefni (Summer Undergraduate Research Fellowship) hjá Caltech, en SURF gengur út á rannsóknasamstarf á milli leiðbeinanda og nemanda í grunnnámi. Frá upphafi SURF-samstarfsins 2008 hafa samtals 26 nemendur Háskóla Íslands haldið til sumarnáms við Caltech og nú bætast tveir nemendur í þann hóp.
Caltech-háskóli er einn fremsti rannsóknaháskóli heims og skipar m.a. annað sæti hins virta matslista Times Higher Education World University Rankings. Dr. Kiyo Tomiyasu (1919-2015), sem var heimskunnur vísindamaður á sviði rafmagnsverkfræði, var lykilmaður í að koma á samstarfinu milli Caltech og Háskóla Íslands. Rektor Háskóla Íslands ákvað á síðastliðnu ári að styrkirnir sem Háskóli Íslands veitir til námsins við Caltech muni í virðingarskyni framvegis bera nafn hjónanna Kiyo og Eiko Tomiyasu en þau hafa sýnt íslenskum nemendum við Caltech einstaka velvild í gegnum tíðina.