Er hægt að hanna vináttu? - Háskóli Íslands og CCP opna nýtt netnámskeið
Háskóli Íslands og CCP hafa tekið höndum saman og þróað nýtt opið netnámskeið um vináttu á tímum vaxandi tölvuleikjaspilunar. Námskeiðið, sem verður í boði innan hins vel þekkta edX-nets, verður formlega opnað í húsakynnum CCP í Grósku í Vatnsmýri miðvikudaginn 26. maí kl. 17.
Námskeiðið er á ensku og ber heitið Vináttuvélin: Að mynda nýja tegund mannlegra tengsla (Friendship machine: forming a new type of human connections). Kennarar eru þeir Tryggvi Hjaltason, yfirráðgjafi í stefnumótun hjá CCP, og Ársæll Már Arnarsson, prófessor í tómstunda- og félagsmálafræði við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.
Tölvuleikjaiðnaðurinn hefur vaxið gríðarlega hratt á 21. öldinni og eru tekjur af honum nú orðnar meiri en samanlagðar tekjur kvikmynda- og tónlistargeirans. Áætlað hefur verið að 2,6 milljarðar manna stundi nú tölvuleiki að jafnaði og reikna má með að 125 milljónir nýrra spilara bætist í þann hóp á þessu ári.
Í námskeiðinu er rýnt í þau margslungnu áhrif sem tölvuleikir hafa í samfélaginu í dag. Innan CCP hafa verið unnar rannsóknir á samskiptum og vináttuböndum sem myndast hafa milli spilara í fjölspilunarleiknum EVE Online og hjá Háskóla Íslands er löng hefð fyrir rannsóknum á heilsu og líðan ungs fólks. Hvoru tveggja er miðlað í námskeiðinu en það er opið öllum áhugasömum um allan heim og fólk getur tekið það á þeim hraða sem það kýs.
Er hægt að hanna vináttu? Hefur vinátta sem verður til á netinu sömu þýðingu og sú sem verður til í raunheimum? Hvaða hlutverki gegna tölvuleikir í myndun nýrra vinasambanda þvert á heimsálfur? Hver eru heilsufarsleg áhrif þess að vera einmana og hvaða hlutverki gegna tölvuleikir í að rjúfa einangrun fólks? Þessum og fleiri spurningum er svarað á námskeiðinu auk þess sem fjallað er um hvernig tölvuleikir eru að þróast, bæði sem afþreying og samfélagslegur áhrifavaldur.
Námskeiðið er undir hatti edX-netsins, alþjóðlegs og leiðandi nets háskóla sem bjóða opin netnámskeið og eiga að höfða til breiðs alþjóðlegs hóps þátttakenda. Bandarísku háskólarnir Harvard og MIT stofnuðu netið og Háskóli Íslands hefur verið hluti af því frá árinu 2017. Skólinn hefur þegar þróað fimm námskeið innan netsins um allt frá miðaldabókmenntum til jarðhræringa og hafa 37.000 nemendur frá 150 löndum sótt þau. Þátttaka í edX-netinu er liður í stefnumörkun Háskólans um aukna áherslu á stafræna kennsluhætti, nýsköpun í kennslu og öflugt samstarf við atvinnulíf.
CCP var stofnað í Reykjavík árið 1997 og er þekktast fyrir útgáfu á fjölspilunarleiknum EVE Online sem nýlega fagnaði 18 ára afmæli sínu. Fyrirtækið flutti nýlega í höfuðstöðvar sínar í hugmyndahúsinu Grósku í Vatnsmýri, sem er stærsta og fjölmennasta starfsstöð þess. Alls starfa rúmlega þrjú hundruð manns hjá CCP í Reykjavík, London og Shanghai.
Hið nýja námskeið verður formlega opnað á athöfn í húsakynnum CCP á þriðju hæð í Grósku 26. maí. Við opnunina munu fulltrúar beggja aðila ræða þróun háskólastarfs til framtíðar og kennarar námskeiðsins, þeir Tryggvi Hjaltason og Ársæll Már Arnarsson, segja frá áherslum þess og efni.
Opnun námskeiðsins er hluti af opnu húsi í Grósku sem tekur við af setningarathöfn Nýsköpunarvikunnar sem fram fer á jarðhæð hússins. Fjöldi gesta á opnun námskeiðsins mun tekur mið af sóttvarnatakmörkunum sem í gildi eru en opnunin verður einnig í beinu streymi.
Námskeiðið má nálgast á vef edX