Einu helsta stjórnmálafræðitímariti Norðurlanda ritstýrt frá HÍ
Einu virtasta fræðitímariti Norðurlanda á sviði stjórnmála verður nú í fyrsta sinn ritstýrt frá Íslandi en í júní s.l. tók ný ritstjórn við fræðatímaritinu Scandinavian Political Studies. Ritið er gefið út af Wiley fyrir hönd NoPSA, samtaka norrænna stjórnmálafræðinga (Nordic Political Science Association). Fram til þessa hefur ritstjórnin flust á milli hinna Norðurlandanna á þriggja ára fresti en fer nú í fyrsta sinn til Íslands.
Það er til marks um aukna virkni og sterka stöðu Stjórnmálafræðideildar HÍ á alþjóðavísu að starfsfólk hennar hafi tekið við ritstjórn þessa virta tímarits. Ritstjórar þess eru þau Maximilian Conrad, Silja Bára Ómarsdóttir og Stefanía Óskarsdóttir, sem öll eru prófessorar við Stjórnmálafræðideild HÍ.
Fyrirkomulagið við ritstjórn þessa tímarits er þannig að ritstjórnarteymið á hverjum tíma kemur frá sama landinu. Nýja ritstjórnarteymið kemur í þetta sinn allt frá Háskóla Íslands. Í samtali við nýju ritstjórana kom fram að þeim þætti markvert að ritstjórn tímaritsins næstu þrjú árin verði í höndum þriggja prófessora við Stjórnmálafræðideild HÍ og jafnframt verður það í fyrsta sinn sem formaður norrænna samtaka stjórnmálafræðinga (NOPSA) sé Íslendingur, Eva Heiða Önnudóttir sem einnig er prófessor við Stjórnmálafræðideild.
„Tímaritið er leiðandi í stjórnmálafræði og sérhæfir sig í viðfangsefnum sem tengjast norrænum stjórnmálum. Það að bæði Scandinavian Political Studies og NOPSA verða stýrt frá Háskóla Íslands næstu árin er skýr vísbending um sterka stöðu Stjórnmálafræðideildar á alþjóðlega fræðasviðinu. Þetta er spennandi áskorun sem mun auka sýnileika Háskóla Íslands og auka hróður deildarinnar,“ segja nýju ritstjórarnir.
Scandinavian Political Studies er leiðandi tímarit um stjórnmál og stjórnsýslu á Norðurlöndunum og mikilvæg heimild fyrir rannsóknir og kennslu um norræn stórnmál, bæði á lands-, svæðis- og sveitarstjórnarstiginu.
Í tímaritinu birtast nýjar rannsóknir á öllum sviðum stjórnmála- og stjórnsýslufræða, meðal annars um ákvarðanatöku, stefnumótun og kosningar. Tímaritið er gefið út fjórum sinnum á ári og er að finna hér.