Einstakt tækifæri í sumarnámi við Stanford-háskóla

„Kennararnir voru ótrúlega áhugasamir og hvöttu okkur til að hugsa á skapandi og gagnrýninn hátt. Tengslanetið sem ég eignaðist er ómetanlegt og mun nýtast mér bæði faglega og persónulega,“ segir Sonja Oliversdóttir, nemi í hagfræði sem fór ásamt þremur öðrum nemum HÍ til sumarnáms í Stanford-háskóla í Kaliforníu í fyrra. Opið er fyrir umsóknir í námið fyrir komandi sumar en það stendur yfir frá 21. júní til 17. ágúst. Umsóknarfrestur er til 22. janúar nk.
Sumarnámið nefnist Stanford Summer International Honors Program (SSIHP) og stendur í átta vikur. Það opnar dyr að einstöku háskóla- og vísindasamfélagi og nemendur eiga auk þess möguleika á að fá námið metið inn í námsferil sinn við HÍ. Námið er fjölbreytt og er m.a. boðið upp á fyrirlestra um nýsköpun og frumkvöðlafræði og farið í skipulagða ferð í Kísildalinn sem er í næsta nágrenni við háskólann.
Auk Sonju fóru þau Aðalheiður Lind Björnsdóttir, nemi í sálfræði, Benedikt Tómas Guðmundsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði og Óðinn Andrason, nemi í vélaverkfræði, til sumarnáms vestan hafs í fyrra. Öll lýsa þau dvölinni við Stanford sem ógleymanlegri reynslu sem þau muni búa að alla ævi. Þau nefna sérstaklega tækifæri á að upplifa bandarískt háskólalíf, áhugaverð námskeið og að kynnast fólki alls staðar að úr heiminum.
Alls konar ævintýri og kennararnir hvetjandi
„Að búa á kampus var eins og að vera staddur í öðrum veruleika. Það er alltaf gott veður, maður er umkringdur skemmtilegu fólki sem er til í að taka þátt í alls konar ævintýrum og það er alltaf nóg hægt að gera og prófa,“ segir Aðalheiður. Skólinn skipuleggi fullt af viðburðum og kampusinn bjóði upp á allar þær íþróttir og áhugamál sem hægt sé að láta sér detta sér í hug. „Áfangarnir sem ég valdi mér voru virkilega áhugaverðir og kennararnir hvetjandi og áhugasamir. Það er líka draumur að vakna í sól og þrjátíu gráðu hita, skreppa í morgunmat með vinum þínum og rölta svo í tíma.“
Óðinn fetaði í fótspor þriggja eldri systra sinna sem allar hafa farið í sumarnámið við Stanford. Hann segir dýrmætast að prófa að stunda nám í öðru landi og kynnast háskólamenningunni í Bandaríkjunum. Hann gekk m.a. í hafnarboltalið sem keppti einu sinni í viku við önnur lið innan skólans. „Félagslífið var mjög öflugt í prógramminu og þetta var svo bandarísk upplifun. Það sem stendur mest upp úr eru kannski skipulögðu ferðirnar og viðburðirnir, t.d. sigling um San Francisco flóa og fótboltaleikur hjá LA Galaxy og San Jose Earthquakes.“ Óðinn telur klárlega að námið hafi aukið framtíðarmöguleika sína og hyggur á framhaldsnám í Bandaríkjunum.
Óðinn Andrason ásamt félögum sínum í hafnaboltaliðinu sem hann gekk í og keppti einu sinni í viku við önnur lið innan skólans.

Fara út fyrir þægindarammann
Sonja segir sumarnámið einstakt tækifæri til að kynnast nýju fólki frá ólíkum bakgrunni, öðlast alþjóðlega reynslu og fá innsýn í nám og kennslu við einn af fremstu háskólum heims. Hún segir hápunkt dvalarinnar hafa verið allir vinirnir sem hún eignaðist, metnaðarfullir kennarar, fallegur kampusinn og góða veðrið.
Benedikt Tómas Guðmundsson leggur áherslu á hvernig námið ýtti honum út fyrir þægindarammann. „Það sem stóð helst upp úr var að kynnast fólki með ólíkan bakgrunn og frá ýmsum löndum. Þetta var ótrúlega þroskandi og reynslan er dýrmæt fyrir bæði nám og störf í framtíðinni.“ Þá hafi námið verið spennandi og ómetanlegt að hafa námsdvöl við Stanford-háskóla á ferilsskránni í framtíðinni.
Stanford-háskóli og Háskóli Íslands undirrituðu samning um sumarnámið árið 2010 og síðan þá hefur stór hópur nemenda nýtt sér þetta einstaka tækifæri til að stunda nám við einn fremsta háskóla heims.
Nánari upplýsingar um sumarnámið má finna á vef Háskóla Íslands og hjá Alþjóðasviði HÍ.
Óðinn Andrason, nemi í vélaverkfræði, Sonja Oliversdóttir, nemi í hagfræði, Benedikt Tómas Guðmundsson, nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði, og Aðalheiður Lind Björnsdóttir, nemi í sálfræði, fóru til sumarnáms í Stanford-háskóla í Kaliforníu í fyrra.