Einmanaleiki minnkar og hamingja eykst með hækkandi aldri
Eldra fólk á Íslandi segist síður einmana og frekar hamingjusamt en yngri aldurshópar samkvæmt niðurstöðum nýlegrar meistararitgerðar í íþrótta- og heilsufræði við Háskóla Íslands. Hún sýnir jafnramt að þau sem hreyfa sig mikið segjast hamingjusömust og þá hafa tekjur einnig bein áhrif á einmanaleika og hamingju.
Rannsóknina vann Þröstur Hjálmarsson en hann útskrifaðist frá Háskóla Íslands í febrúar síðastliðnum. „Markmið þessarar rannsóknar var að kanna þróun og breytingar á einmanaleika-, streitu- og hamingjusvörun fólks og tengslum þessara þátta við kyn, aldur, menntun og tekjur þátttakenda. Ég skoðaði líka áhrif líkamlegrar hreyfingar á einmanaleika, streitu og hamingju og hreyfimynstur mismunandi aldurshópa,“ útskýrir Þröstur, sem vann lokaverkefnið undir leiðsögn Erlings s. Jóhannssonar, prófessors í íþrótta- og heilsufræði.
Í rannsókninni studdist Þröstur við gögn úr rannsókninni Heilsa og líðan Íslendinga sem Embætti landlæknis framkvæmdi á árinu 2017. Spurningalisti var sendur til tæplega 10 þúsund Íslendinga 18 ára og eldri og svarhlutfall reyndist nærri 70%. „Svokallað gagnlíkindahlutfall fyrir streitu, einmanaleika og hamingju var reiknað en segja má að það séu líkurnar á því einstakir hópar upplifi oft eða mjög oft einmanaleika, sem dæmi, í samanburði við annan hóp. Jafnframt voru notuð vigtuð gildi þar sem vigtað var eftir kyni, aldri og búsetu,“ útskýrir Þröstur.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að konur upplifðu oftar einmanaleika og streitu en karlar en enginn munur greindist á hamingjusvörun milli kynja. „Tíðni einmanaleika og streitu lækkaði með hækkandi aldri og var minnst hjá elsta aldurshópum, þ.e. 67 ára og eldri. Þá jókst hamingja með auknum aldri samkvæmt gögnunum,“ segir Þröstur sem telur mjög áhugavert að elsti aldurshópurinn sé síst einmanna, glími við lítil einkenni streitu ásamt því að vera sá hamingjusamasti.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna enn fremur að einstaklingar með framhaldsmenntun voru líklegari til að segjast hamingjusamir en þeir einstaklingar sem aðeins höfðu lokið grunnskólamenntun. Aftur á móti voru reyndust einstaklingar sem höfðu lokið háskólanámi líklegri til að upplifa mikla streitu en aðrir menntunarhópar.
Þegar horft er til tekna reyndust tekjur hafa bein áhrif á svör þátttakenda um einmanaleika og hamingju, en tekjuhæsti hópurinn sagðist síst vera einmana og reyndist jafnframt sá hamingjusamasti. Að sögn Þrastar reyndist enn fremur áhugavert að sjá að streita minnkar ekki með hækkandi tekjum eins og einmanaleiki.
Sem fyrr segir voru þátttakendur einnig spurðir út í líkamlega hreyfingu og sýna niðurstöðurnar að mikil og góð hreyfing dregur verulega úr einkennum streitu og einmanaleika auk þess að þeir einstaklingar sem hreyfa sig mikið eru með mesta hamingjusvörun. „Það er afar mikilvægt að fólk hreyfi sig reglulega en niðurstöður mínar gefa skýrt til kynna að ávinningur þess sé mikill og getur dregið úr auknum einkennum einmanaleika og streitu. Þeir sem hreyfa sig reglulega eru líka hamingjusamari,“ segir Þröstur enn fremur um niðurstöðurnar.
Þröstur segir niðurstöðurnar m.a. undirstrika að huga verði að því að leggja aukna áherslu á efla heilsu meðal yngstu aldurshópanna, 18-30 ára, á Íslandi. Einstaklingar innan þess hóps séu oft með lágar tekjur og eru í mestri hættu á að upplifa mikla streitu og einmanaleika og óhamingju. „Niðurstöður rannsóknarinnar gefa einnig góða vísbendingar um stöðu og þróun mikilvægra heilsufarsþátta hjá mismunandi aldurshópum á Íslandi,“ segir Þröstur að lokum.