Einkenni um krabbamein fara oft fram hjá þeim sem skoða sneið- og röntgenmyndir
Þeir sem skoða röntgenmyndir eða sneiðmyndir missa oft af einkennum um sjúkdóma á borð við krabbamein í heila eða í brjóstum. Þetta kemur fram í nýrri rannsókn sem Árni Kristjánsson, prófessor í sálfræði við Háskóla Íslands, hefur leitt ásamt þeim Mauro Manassi og David Whitney við Kaliforníuháskóla í Berkeley. Niðurstaðan var birt í vísindatímaritinu Scientific Reports sem gefið er út af Nature núna í vikunni. Rannsókn þeirra sýnir hvernig kerfisbundnar skynjunarvillur geta komið fram hjá þeim sem skoða reglulega röntgenmyndir, t.d. vegna gruns um ýmiss konar krabbamein. Vísindamennirnir hafa sjálfir hugmyndir um hvernig unnt er að bæta verklag við slíkar skoðanir. Af niðurstöðum að dæma er ljóst að gagnsemin er mikil af þessari rannsókn og hugsanlega getur rannsóknin bjargað mannslífum ef rétt er brugðist við að mati Árna.
„Í rannsókn okkar veltum við fyrir okkur hvort eitthvað í sjónskynferlinu sjálfu gæti skýrt mannleg mistök. Við höfum áður staðfest að það sem fólk hefur séð áður getur bjagað skynjunina á því sem það sér síðan í framhaldinu, svokölluð raðáhrif í skynjun“ segir Árni Kristjánsson sem hefur aðallega fengist við að skilja sjónkerfi mannsins og hvernig athygli og sjónskynjun vinna saman.
„Við hönnuðum sérstakt sjónskynjunarverkefni sem hluta af rannsókn okkar þar sem í voru þættir sem líktust merkjum um frumubreytingar í röntgenmyndum. Þetta gerðum við til að mæla hvernig og hvort raðáhrif í skynjun fólks gætu haft áhrif á hvernig það skynjar áreiti og hvort raðáhrifin gætu breytt skynjun fólks og þá jafnvel valdið villum.“
Árni segir að rannsóknin sýni enn fremur fram á að eftir því sem áreiti eru óalgengari því líklegra sé að þátttakendur finni þau ekki á þeim myndum sem eru til skoðunar.
Sömu þættir geta hafa áhrif á öryggisverði á flugvöllum
Árni segir að niðurstöðurnar sýni ótvírætt að raðáhrif geti skekkt skynjun fólks á áreitum sem líkjast röntgenmyndum og þannig haft bein áhrif á niðurstöður úr athugunum. „Við veltum einnig upp spurningum í rannsókninni hvort áreiti af þessu tagi geti haft áhrif á skynjun þeirra sem leita að vopnum eða öðrum hættulegum hlutum á flugvöllum.“
Hann segir að því miður sé mjög algengt að niðurstöður í röntgen- og sneiðmyndarannsóknum séu ekki túlkaðar á réttan hátt. „Mælingar benda til að um 20% brjóstakrabbameina fari fram hjá þeim sem skoða myndir vegna gruns um slík mein. Einnig er algengt að hættulegir hlutir sleppi í gegnum skoðun á flugvöllum.“
Árni Kristjánsson er fæddur árið 1970. Hann lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum við Hamrahlíð árið 1990 og BA-prófi í sálfræði og heimspeki frá Háskóla Íslands árið 1996. Árni hóf doktorsnám við Vision Sciences Laboratory við Harvard-háskóla í Cambridge Massachusetts 1997 og varði doktorsritgerð sína árið 2002. Eftir doktorspróf hlaut Árni styrk frá Human Frontiers Science Program til þess að stunda rannsóknir við Institute of Cognitive Neuroscience við University College London þar sem hann starfaði frá 2002 til 2004. MYND/Kristinn Ingvarsson
Margar ástæður fyrir mannlegum mistökum
Árni segir að rannsóknir hans og samstarfsmanna hafi beinst að því að athuga hvernig og hvers vegna hvernig fólk geri slík mistök. „En þessi rannsókn bendir á eina mikilvæga ástæðu fyrir mannlegum yfirsjónum. Þar sem við höfum nú sýnt fram á þennan mannlega veikleika með rannsóknum þá er eðlilegt að velta fyrir sér aðferðum til að bæta úr þessu.“
Árni segir margar ástæður fyrir því að fólk skynji ekki hluti á réttan hátt. „Raðáhrif geta verið ein ástæða þess og þau leiða einfaldlega til þess að skynjun okkar á veruleikanum mótast af því sem við höfum upplifað áður. Úrbætur eru að mínum dómi augljósar og felast fyrst og fremst í að brjóta upp raðhrifin, með því að beita ýmsum mismunandi aðferðum við könnun slíkra áreita, til dæmis með því að breyta um sjónarhorn. Aukin fjölbreytni í því hvernig áreiti eru könnuð getur hjálpað og eins hitt að gefa fólki hlé frá svona vinnu með jöfnu millibili.“
Grunnrannsóknir mikilvægar
Árni segir að grunnrannsóknir eins og þessi, þar sem fyrst og fremst er einblínt á að skilja grunnferli skynjunar, skipti öllu máli. „Til þess að unnt sé að beita rannsóknum til að auka lífsgæði, bæta heilsu o.s.frv., verða grunnrannsóknir að koma til. Það er áhyggjuefni hve stjórnvöld sýna þessu lítinn skilning. Mikilvægt er að ákvarðanir sem við tökum um okkar samfélag séu byggðar á góðum gögnum. Þar leika áreiðanlegar vísindaniðurstöður lykilhlutverk.“
Mikilhæfur vísindamaður og frumkvöðull
Frá árinu 2004 hefur Árni Kristjánsson verið akademískur starfsmaður við Háskóla Íslands og unnið við fjölbreytt rannsóknaverkefni á sviði sálfræði. Hann hefur m.a. rannsakað verkan sjónskynjunar og athygli hjá fólki með kvíðasjúkdóma og lesblindu.
Árni hefur einnig vakið mikla athygli fyrir fjölfræðilegar rannsóknir sem leitt hafa til nýsköpunar en hann er einn fulltrúa Íslands í Sound of Vision-verkefninu sem vísindamenn við Háskóla Íslands hafa forystu um. Verkefnið hlaut í fyrra fyrstu verðlaun í flokknum „Tækni fyrir samfélag“ í úrslitum Nýsköpunarverðlauna framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins. Verkefnið miðar að því að þróa hátækniskynunarbúnað til að aðstoða blinda til þess að ferðast um án annarra hjálpartækja.