Einar Stefánsson heiðraður í Cambridge og Tampere
Einar Stefánsson, prófessor við Læknadeild Háskóla Íslands og yfirlæknir á augndeild Landspítalans, tók á dögunum við verðlaunum sem veitt eru á sviði rannsókna í augnlækningum. Um er að ræða svokallaða Peter Watson medalíu en hún er veitt fyrir framúrskarandi vísindaframlag á þessu sviði. Einar tók við verðlaununum við St. John´s College í Cambridge-háskóla á Englandi en margir af fremstu vísindamönnum heims á sviði augnlækninga hafa hlotið þessi verðlaun.
„Það er alltaf ánægjulegt að vera heiðraður af þeim sem hafa þekkingu á málum. Vísindamenn við Cambridge-háskóla hafa í hálfa öld valið helstu vísindamenn á þessu sviði til þessa heiðurs. Maður verður eiginlega feiminn að vera valinn í hóp þessara stórmenna á sviði augnrannsókna,“ segir Einar Stefánsson, aðspurður um gildi þessara verðlauna.
Einar hefur drjúgan part starfsævinnar unnið að rannsóknum á lífeðlisfræði augna og augnsjúkdóma og er mjög kunnur á alþjóðavettvangi fyrir þau störf sín. Hann er meðhöfundur að meira en 200 greinum í virtum ritrýndum vísindatímaritum og höfundur um 400 ritverka og úrdrátta um augnlækningafræði. Hann er einnig í hópi afkastamestu frumkvöðla Háskóla Íslands.
Viðburðurinn þar sem verðlaunin voru afhent kallast The Cambridge Ophthalmological Symposium og hefur hann verið haldinn árlega í röska hálfa öld. Á hverju ári er þeim vísindamanni sem skarar hvað helst fram úr á sviði augnrannsókna boðið að stjórna viðburðinum og flytja erindi um eigin rannsóknir. Einar Stefánsson var fundarstjóri að þessu sinni og flutti hann erindi um súrefnisbúskap sjónhimnu og glerhlaups augans og hvernig hann hefur áhrif á sjúkdóma og meðferð þeirra.
„Augnrannsóknir eru fámenn grein á Íslandi og erfitt fyrir utanaðkomandi að gera sér grein fyrir hvort við séum að vinna merkilegt starf eða ekki,“ segir Einar. „Utanaðkomandi viðurkenningar hjálpa til við það mat. Mér skilst að það hafi verið Halldór Laxness sem orðaði það þannig að „upphefð vor komi að utan“.
Hið virta breska vísindatímarit EYE mun gefa út sérstakt hefti efir áramótin, sem verður helgað ráðstefnunni við Cambridge og mun Einar skrifa ritstjórnargrein auk vísindagreinar í blaðið.
Einar Stefánsson er mikilsvirtur vísindamaður og einn sá afkastamesti við Háskóla Íslands og Landspítala. Rannsóknir hans hafa margsinnis orðið kveikja að nýsköpun og sprotafyrirtækjum en hann hefur ítrekað verið verðlaunaður fyrir störf sín í þágu vísinda. Einar var t.d. valinn heiðursvísindamaður Landspítala fyrir fáeinum árum og haustið 2014 tók hann við sérstökum heiðursverðlaunum Danska augnlæknafélagsins fyrir afar mikilvægt framlag til rannsókna í augnlæknisfræði á alþjóðavettvangi. Hann hlaut heiðursverðlaun Ásu Guðmundsdóttir Wright fyrir árið 2008 en sama ár hlaut hann svokölluð Jules Gonin verðlaun. Á síðasta ári var Einar sæmdur gullmedalíu á þingi norrænna augnlækna í Árósum.
Það hefur verið skammt stórra högga á milli hjá Einari Stefánssyni því fyrr í haust valdi finnska augnrannsóknafélagið, The Finnish Association for Eye Research, Einar til að flytja svokallaðan Elsemay Björn fyrirlestur við Háskólann í Tampere í Finnlandi. Finnar hafa heiðrað augnvísindamenn á þennan hátt undanfarin áratug.