Skip to main content
24. mars 2021

Byggingum Háskólans lokað frá miðnætti 

Byggingum Háskólans lokað frá miðnætti  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu á starfsfólk og stúdenta í dag (24. mars):

„Kæru nemendur og samstarfsmenn 

Ríkisstjórn Íslands boðaði í dag hertar aðgerðir gegn útbreiðslu kórónuveirunnar vegna nýrra smita sem hafa blossað upp í samfélaginu. Hertar aðgerðir, sem taka gildi á miðnætti, hafa í för með sér að öllum byggingum Háskóla Íslands verður lokað a.m.k. fram yfir páska og öll kennsla verður rafræn. Undantekningar frá lokun eru Stúdentakjallarinn, sem er veitingastaður og starfar innan þeirra marka sem kveðið er á um í sóttvarnarreglum, og Bóksala stúdenta á Háskólatorgi sem starfar samkvæmt sóttvarnarreglum um verslanir.  

Í samfélaginu öllu mun gilda sú meginregla að einungis tíu manns mega koma saman og tveggja metra reglan verður við lýði. Andlitsgrímur verða víða skylda. Starfsfólk er hvatt til að hafa samráð um vinnutilhögun við næsta stjórnanda og að vinna heima ef þess er nokkur kostur.

Nánari útfærsla á þeim reglum sem gilda munu um starf Háskólans verður tilkynnt um leið og reglugerð ráðherra verður birt. 

Þetta er vissulega áfall fyrir okkur öll en við vitum af reynslunni að það er unnt að klífa þennan bratta. 

Kæru nemendur og samstarfsfólk. Seigla ykkar á þessu ári öllu og á stærstum hluta þess síðasta hefur verið með ólíkindum. Ég hef ítrekað fyllst stolti yfir þreki ykkar og sveigjanleika við að takast á við þennan vágest. Höldum áfram á sömu braut og verum minnug þess að saman vinnum við sigra. 

Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

""