Breytingar á námskrá í Hjúkrunarfræðideild

Vakin er athygli á breytingum á námskrá meistaranáms í Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Frá og með hausti 2016 býðst hjúkrunarfræðingum með fyrstu einkunn á BS-prófi frá Háskóla Íslands og sambærilegu námi, nám til MS prófs þar sem metnar eru allt að 30 einingar úr BS-námi þeirra. Forsendur þessa eru að BS-nám í hjúkrunarfræði við Háskóla Íslands er fjögurra ára nám á meðan BS- og BA-nám í öðrum greinum er að öllu jöfnu þriggja ára nám.
Fimmtudaginn 7. apríl nk. kl. 16:00 verður opinn kynningarfundur og spjall um framhaldsnámið í Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands. Áhugasamir eru hvattir til að mæta og kynna sér fjölbreytt framhaldsnám í boði.
Í endurskoðaðri námskrá BS-náms sem tók gildi haustið 2015 eru 30 ECTS-einingar á meistarastigi á fjórða námsári og verður því um skörun á BS og MS námi að ræða í framtíðinni. Vonast er til að þessi breyting verði til hagsbóta fyrir hjúkrun og hjúkrunarfræðinga og til að efla þjónustu við sjúklinga. Með þessum breytingum geta nemendur nú lokið BS- og MS-námi á samtals fimm og hálfu ári í stað sex áður. Einnig er vakin athygli á fjölbreyttu framhaldsnámi í Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands.
Veturinn 2016-2017 er boðið upp á diplómanám í gjörgæsluhjúkrun, hjúkrun aðgerðasjúklinga og í hjúkrunarstjórnun. Auk meistaranáms á fyrrgreindum sérsviðum er í boði meistaranám í heilsugæsluhjúkrun, geðhjúkrun, barnahjúkrun, hjúkrun í langvinnum veikindum og á efri árum og öðrum klínískum sérsviðum. Eins og áður er áherslan í meistaranámi á hlutverk klínískra sérfræðinga, stjórnenda, leiðtoga eða rannsakenda. Auk þess er í boði grunn- og meistaranám í ljósmóðurfræði og þverfræðilegt diplómanám í kynfræði. Áfram verður boðið upp á einstök námskeið á meistarastigi í samstarfi við Endurmenntun Háskóla Íslands.
Sífellt fleiri sækja um doktorsnám í Hjúkrunarfræðideild og eru hjúkrunarfræðingar hvattir til að kynna sér umsóknarferlið en tekið er við umsóknum allt árið.
Þörfin fyrir vel menntaða hjúkrunarfræðinga fer vaxandi og annar framboð ekki eftirspurn. Metnaðarfullir hjúkrunarfræðingar eru hvattir til að kynna sér námsframboðið á heimasíðu deildarinnar
Frekari upplýsingar má fá hjá verkefnastjórum framhaldsnámsins, Margréti Gunnarsdóttur og Elínu Helgadóttur.
Umsóknarfrestur um viðbótardiplómanám og meistaranám fyrir haustmisseri 2016 er til 15. apríl 2016 og fyrir vormisseri 2017 til 15. október 2016.
Fimmtudaginn 7. apríl nk. kl. 16:00 verður opinn kynningarfundur um framhaldsnám í Hjúkrunarfræðideild Háskóla Íslands