Skip to main content
27. janúar 2021

Breyting á smitleiðum veira í menn

Breyting á smitleiðum veira í menn - á vefsíðu Háskóla Íslands

Í ljósi útbreiðslu kórónuveirunnar sem veldur COVID-19 og þeirra alvarlegu afleiðinga sem veiran hefur haft á heilsu manna og hagkerfi um heim allan hafa margir spurt sig að því hvort hegðun manna sé partur af því að svona hafi farið. Er þá bæði átt við hvernig veiran komst upprunalega í fólk og hvernig hún hefur síðan dreifst um alla jörðina. 

Magnús Gottfreðsson er prófessor í smitsjúkdómafræðum við Háskóla Íslands og yfirlæknir á Landspítala. Hann svarar þeirri spurningu játandi hvort einhver breyting sé að verða á því hvernig veirur hegði sér, eða öllu heldur hvernig þær komist í fólk? 

„Í fyrsta lagi er maðurinn býsna ágeng tegund,“ segir Magnús, „hann hefur tekið yfir stóran hluta af þessari plánetu sem við byggjum. Hann hefur ráðist inn í lífríki sem eru býsna flókin og hafa verið einangruð um árþúsundaskeið. Maðurinn hefur rutt skóga og lagt sér til munns ýmiskonar dýrategundir sem eru ekki aðlagaðar okkur. Allt þetta eykur líkurnar á snertingu milli tveggja heima, annars vegar okkar heims, og þessa stóra og flókna örveruheims sem fylgir þessum vistkerfum.“

Magnús segir að þegar fólk sé stöðugt að ásælast og leggja undir sig skóglendi og lífríki í mjög víðum skilningi komi til árekstra og tíðni slíkra árekstra hafi verið að aukast. 

Fólksfjölgun og ferðalög auka hættu á dreifingu

„Til viðbótar í þessa uppskrift er okkur mönnunum að fjölga. Við erum orðin gríðarlega mörg á þessari jörð. Við erum 8,6 milljarðar. Þriðja uppskriftin er þessi. Við erum farin að ferðast hringinn í kringum jörðina á innan við sólarhring. Þannig að allt leggst á eitt.  Ef einhver kemst í tæri við nýjan sýkil þá eru miklu meiri líkur á því að úr því verði eitthvað meira en bara staðbundið vandamál.“

Magnús segir að í gegnum aldirnar hafi örugglega hent að einhver hafi verið óheppinn og fengið í sig einhverja tiltekna sýkingu og annaðhvort jafnað sig eða dáið. Það hafi í raun ekki haft meiri afleiðingar en það. 

„En í dag er sviðsmyndin allt önnur. Við búum þétt, við búum í borgum. Við erum í flugvélum, í lestum, neðanjarðarlestum og á fótboltaleikjum þar sem hundrað þúsund manns koma saman og allir eru syngjandi. Allt þetta gerir það að verkum að líkurnar á dreifingu sýkla hámarkast,“ segir Magnús. 

Hann segir að líkurnar á dreifingu sýkilsins hámarkist ekki bara í nærsamfélagi þess einstaklings sem fær í sig smitefnið fyrstur allra heldur dreifi hann smitefninu hugsanlega langt út fyrir landamæri síns eigin lands og jafnvel geti nýr sýkill ferðast hringinn í kringum hnöttinn á innan við sólarhring. 

„Ég held að flestir sem rannsakað hafa þessi mál séu á einni skoðun um að þessi vandamál eru komin til að vera vegna þess að það er mjög erfitt að snúa af þessari braut. Það er ekki ómögulegt en ég tel líklegt að fólk verði eftirleiðis vera betur meðvitað um þetta vandamál og reyni að draga úr hættunni eins og kostur er.“
 

Magnús Gottfreðsson