Brautskráning verður í Laugardalshöll 27. júní
Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:
„Kæru nemendur og samstarfsfólk.
Ákveðið hefur verið að vorbrautskráning Háskóla Íslands fari fram í tveimur athöfnum í Laugardalshöll laugardaginn 27. júní næstkomandi. Þetta er mikið gleðiefni en rýmkun stjórnvalda á möguleikum fólks til að koma saman gerir þetta kleift. Við munum auglýsa innan skamms nánari tilhögun viðburðarins og tímasetningar.
Það er okkur jafnframt einstök ánægja að sjá þann mikla áhuga sem er fyrir sumarnámi í Háskóla Íslands. Um eitt þúsund manns hafa skráð sig í þau fjölbreyttu námskeið sem skólinn býður upp á í samstarfi við stjórnvöld. Ég hvet ykkur öll til að skoða framboðið og skrá ykkur í það sem vekur áhuga og gagnast ykkur í námi og starfi. Sumt sem er í boði er einnig þess eðlis að það er frábært veganesti út í lífið sjálft.
Ég vil vekja athygli ykkar á að núna í vikunni voru birtar hartnær þrjú hundruð auglýsingar um sumarstörf hjá Háskóla Íslands. Sumarstörfin hér eru liður í efnahagsaðgerðum stjórnvalda vegna COVID-19. Vinnumálastofnun stýrir þessi átaki sem efnt er til í samvinnu við ríkisstofnanir og sveitarfélög. Ég hvet ykkur kæru nemendur til að kynna ykkur þau fjölbreyttu störf sem er að finna í Háskóla Íslands. Umsóknarfrestur um störfin er til 5. júní.
Ég hvet ykkur öll til að fara áfram varlega og fylgja fyrirmælum varðandi sóttvarnir. Njótum helgarinnar!
Jón Atli Benediktsson, rektor“