Skip to main content
19. júní 2020

Brautskráning fram undan og fyrirkomulag kennslu á komandi haustmisseri

Kandídatar á brautskráningu

Jón Atli Benediktsson, rektor Háskóla Íslands, sendi meðfylgjandi tilkynningu til starfsfólks og nemenda í dag:

„Kæru nemendur og samstarfsfólk.

Í vikunni varð ljóst að Háskólinn á von á miklum fjölda nýrra nemenda í haust því alls reyndust umsóknir um grunn- og framhaldsnám hátt í 12.000. Það er langmesti fjöldi umsókna sem skólinn hefur nokkurn tíma fengið. Þær skiptast þannig að 6.700 umsóknir bárust um grunnnám og um 5.000 umsóknir um framhaldsnám, eins og lesa má nánar um á vef skólans. Það er gott að sjá að nú þegar herðir að í efnahagslífi landsins vegna áhrifa kórónaveirufaraldursins skuli fólk velja að mennta sig frekar til nýrra áskorana. Mjög gleðilegt er einnig að sjá aukna aðsókn í kennara- og hjúkrunarfræðinám en þar horfir samfélagið fram á skort á menntuðu starfsfólki á næstu árum. Við vitum hins vegar að sú mikla fjölgun nemenda við skólann sem blasir við mun reyna bæði á starfsfólk og innviði.

Hafinn er undirbúningur við að kortleggja þá fjölgun nemenda sem von er á og með hvaða hætti hægt er að tryggja kennslukrafta, stuðning við kennara og starfsfólk og þjónustu við nemendur. Lögð verður áhersla á að tryggja áfram gæði kennslu og þjónustu innan skólans við þessar krefjandi aðstæður. Samtal við stjórnvöld um fjármögnun vegna þessarar nemendafjölgunar er þegar hafið og vonumst við til að viðbótarfjármagn fáist vegna þess óhjákvæmilega kostnaðar sem framundan er. Stjórnendur skólans munu halda starfsfólki upplýstu um þessa vinnu eftir því sem henni vindur fram.

Fyrirkomulag kennslu á komandi haustmisseri

Fyrirkomulag kennslu á haustmisseri 2020 ræðst fyrst og fremst af tilmælum sóttvarnalæknis og yfirvalda. Því er eftirfarandi áætlun sett fram með þeim fyrirvara að henni verður breytt ef tilmæli yfirvalda gefa tilefni til. Á þessari stundu verður þó ekki annað séð en að samkomubann verði áfram rýmkað og starfsemi samfélagsins komist smám saman í eðlilegt horf. Háskólinn hefur því, miðað við núverandi tilmæli sóttvarnalæknis, ákveðið eftirfarandi tilhögun á kennslu á haustmisseri 2020:

•    Kennsla fer fram í húsnæði HÍ.
•    Gert er ráð fyrir að allt að 15% nemenda í hverju námskeiði óski eftir auknu rými, t.d. tveimur metrum milli sæta. Misjafnt er eftir kennslustofu hvar og hvort þetta rými er í stofunni.
•    Allir kennarar skólans munu nota námsumsjónarkefið Canvas frá og með haustinu 2020.
•    Stefnt er að því að allt prófahald verði rafrænt, í netheimum eða stofum skólans eftir atvikum.

Ef samkomubann eða aðrar aðstæður gefa tilefni til verður Neyðarstjórn skólans virkjuð og gerðar breytingar á kennslu og starfsemi skólans í takt við það sem gert var á vormisseri 2020.

Brautskráning kandídata 27. júní nk. 

Brautskráning Háskóla Íslands fer fram í Laugardalshöll laugardaginn 27. júní og verður henni skipt í tvær athafnir líkt og undanfarin ár en þó með öðru sniði en verið hefur. Einungis kandídatar, sem taka á móti brautskráningarskírteinum sínum, verða viðstaddir athöfnina.

Á fyrri brautskráningarathöfninni, sem hefst kl. 10, fá kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Heilbrigðisvísindasviði og Verkfræði- og náttúruvísindasviði útskriftarskírteini sín.

Seinni athöfnina, sem hefst kl. 13.30, sækja kandídatar í grunn- og framhaldsnámi frá Félagsvísindasviði, Hugvísindasviði og Menntavísindasviði.

Áhersla verður lögð á að athöfnin sé örugg m.t.t. sóttvarna. Þannig verður Laugardalshöllinni skipt í tvö svæði, merkt A og B, og verður kandídötum deilt á þau svæði á athöfnunum. Enn fremur verður boðið upp á sérstakt svæði með tveimur metrum á milli sæta fyrir þau sem vilja en kandídatar þurfa að tilkynna það ef þeir hyggjast nýta það svæði.

Starfsfólk Háskólans verður á staðnum á brautskráningunni og leiðbeinir kandídötum um sætaskipan.

Gestir verða ekki viðstaddir athafnirnar en beint streymi verður fyrir aðstandendur kandídata og önnur áhugasöm.

Kandídatar hafa fengið send rafræn bréf með upplýsingum um athöfnina og eru þeir vinsamlega beðnir um að tilkynna það skrifstofu deildar sinnar fyrir kl. 15.00 mánudaginn 22. júní ef þeir hafa ekki tök á að vera viðstaddir brautskráninguna.

Kær kveðja og góða helgi.
Jón Atli Benediktsson, rektor“
 

nemendur í tíma