Skip to main content
17. mars 2023

Blái naglinn veitir styrki til grunnrannsókna á krabbameinum

Blái naglinn veitir styrki til grunnrannsókna á krabbameinum - á vefsíðu Háskóla Íslands

Árið 2021 lét Jóhannes Reynisson, stofnandi Bláa naglans, fé (2.378.920 kr.) renna til Háskóla Íslands til styrktar grunnrannsóknum á krabbameinum. Í framhaldinu var leitað til Lífvísindaseturs HÍ til að koma fjármagninu í þann farveg sem því var ætlað. Stjórn setursins var einhuga í því að styrkirnir skyldu renna til ungra vísindamanna við Háskóla Íslands, alls 5 styrkir sem myndu dreifast jafnt.

Auglýst var eftir umsóknum um styrki til verkefna nemenda í framhaldsnámi eða nýdoktora sem byggðu á grunnrannsóknum á krabbameinum. Alls bárust 10 umsóknir sem allar fengu faglegt álit þriggja matsmanna og hlaut helmingur þeirra styrk. Styrkupphæðin var sú sama í öllum tilvikum eða 475.000 kr. 

Styrkþegarnir eru:

Abbi Elise Smith doktorsnemi: Áhrif SMOR173C stökkbreytingarinnar á svipgerð krabbameina. Leiðbeinandi: Sara Sigurbjörnsdóttir
Nánar um verkefnið: Markmiðið er að kanna hvort svipgerð krabbameins í frumum sem yfirtjá SMO stökkbreytt prótein breytist miðað við frumur sem yfirtjá SMO prótein af villigerð. Samanburðurinn verður m.a. metinn með því að mæla frumufjölgun, frumufar og tjáningu á ýmsum æxlissameindum.

Karen Kristjánsdóttir doktorsnemi: Sviperfðastjórnun á DNA-viðgerðargenum í krabbameinum. Leiðbeinandi: Stefán Sigurðsson
Nánar um verkefnið: Markmiðið er að kanna áhrif frumudrepandi lyfja á frumur sem skortir tjáningu á DNA viðgerðargenunum ALKBH3 og FTO og áhrif þeirra á DNA viðgerð í gegnum stjórnun á tjáningu RNF168 gensins sem einnig er mikilvægt í DNA viðgerð.

Teitur Sævarsson meistaranemi: Hlutverk MITF í ónæmisforðun í sortuæxlum. Leiðbeinandi: Berglind Ósk Einarsdóttir
Nánar um verkefnið: Markmiðið er að ákvarða ónæmisvirkni sortuæxlisfrumna sem tjá lítið magn af MITF umritunarþættinum sem gegnir lykilhlutverki í litfrumum og sortuæxlum.

Yiming Yang Jónatansdóttir doktorsnemi: Skimun á hrifilnæmum sykurrofshindrum gegn krabbameini. Leiðbeinandi: Jens G. Hjörleifsson
Nánar um verkefnið: Markmiðið er að skima fyrir hrifilnæmum hindrum gegn sykurrofsensímunum glúkósa-6-fosfat isomerasa og triósafosfat ísomerasa en þau eru bæði yfirtjáð í mörgum gerðum krabbameina, sérstaklega í æxlum sem eru mjög háð sykurrofi.

Zara Ahmad meistaranemi: Breytt áhrif lyfjameðferðar í kjölfar FGD5-AS1 skorts í sarkmeinsfrumulínum. Leiðbeinandi: Linda Viðarsdóttir
Nánar um verkefnið: Markmiðið er að kanna hlutdeild lncRNA FGD5-AS1 í sjálfsáti og hvort breyting á tjáningu þess leiði til breytinga á svörun við krabbameinsmeðferð í sarkmeinsfrumulínur. 

Við afhendingu styrkjanna 16. mars fluttu Jóna Freysdóttir, formaður stjórnar Lífvísindaseturs, og Jón Atli Benediktsson háskólarektor stutt ávörp auk þess sem Jóhannes V. Reynisson frá Bláa naglanum tók til máls og gerði að umtalsefni mikilvægi þess að bæta skilvirkni þegar að fé væri veitt til vísindarannsókna.
 

Blái naglinn veitir styrki til grunnrannsókna á krabbameinum
Abbi Elise Smith, doktorsnemi. Heiti verkefnis: Áhrif SMOR173C stökkbreytingarinnar á svipgerð krabbameina.
Karen Kristjánsdóttir, doktorsnemi. Heiti verkefnis: Sviperfðastjórnun á DNA viðgerðargenum í krabbameinum.
Teitur Sævarsson, meistaranemi. Heiti verkefnis: Hlutverk MITF í ónæmisforðun í sortuæxlum.
Yiming Yang Jónatansdóttir, doktorsnemi. Heiti verkefnis: Skimun á hrifilnæmum sykurrofshindrum gegn krabbameini.
Zara Ahmad, meistaranemi. Heiti verkefnis: Breytt áhrif lyfjameðferðar í kjölfar FGD5-AS1 skorts í sarkmeinsfrumulínum.