Skip to main content
31. mars 2020

Bakhjarlar Menntavísindasviðs veita fagfólki og foreldrum stuðning

""

Á dögunum var hleypt af stokkunum vefsvæði Bakhjarla Menntavísindasviðs þar sem sérfræðingar sviðsins bjóða fram ráðgjöf og stuðning fyrir starfsfólk og stofnanir í skóla- og frístundaumhverfinu. Foreldrar geta einnig sótt í smiðju bakhjarlanna hollráð sem tengjast til dæmis stuðningi við nám barna þeirra eða ráðgjöf sem varða velferð barna á þessum fordæmalausu tímum sem uppi eru. 

Á vefsvæði bakhjarla eru að finna stuttar hagnýtar greinar sem nýst geta foreldrum og fagfólki. Meðal annars er fjallað um heimastærðfræði, núvitund og heilsu, góð ráð til að tala við börn um veiruna, gildi þess að leika og læra, tónmennt og sköpun, lýðræði og hlutverk skóla. Þá er í bígerð að bjóða upp á rafræna foreldrafræðslu og rafræna ráðgjöf fyrir foreldra um nám og líðan barna og ungmenna.

Kolbrún Þ. Pálsdóttir, forseti Menntavísindasviðs, segist vera stolt af framtaki fræðafólks á Menntavísindasviði, sem vill láta gott af sér leiða á vettvangi enda séu kennarar, stjórnendur og starfsfólk í frístundastarfi að lyfta grettistaki um allt land með hugrekki, lausnaleit og samstarfi sín á milli til að koma til móts við nám og velferð barna og ungmenna. „Styrkur íslensks samfélags er mikill og endurspeglast í börnunum og unga fólkinu sem aðlagast að breyttum aðstæðum mun hraðar en við fullorðna fólkið. Það er mikið álag á margar fjölskyldur. Ég dáist að æðruleysi og seiglu foreldra sem margir sinna bæði börnum sínum, námi þeirra, eigin vinnu eða námi að heiman. Við hvetjum fólk til að senda okkur línu og óska eftir ráðgjöf eða stuðningi, við erum öll í sama liði,“ segir Kolbrún.

Vefsvæði Bakhjarla Menntavísindasviðs

Kolbrún  Pálsdóttir.