Skip to main content
28. desember 2021

AWE - Nýsköpunarhraðall HÍ fyrir konur haldinn í annað sinn 

AWE - Nýsköpunarhraðall HÍ fyrir konur haldinn í annað sinn  - á vefsíðu Háskóla Íslands

Nýsköpunarhraðallinn Academy for Women Entrepreneurs (AWE), sem Háskóli Íslands og Bandaríska sendiráðið á Íslandi standa saman að, verður haldinn í annað sinn snemma á nýju ári. Bæði einstaklingar og lið geta tekið þátt í hraðlinum og frestur til að skila inn umsókn um þátttöku rennur út 17. janúar 2022. Kynningarfundur fyrir hraðalinn verður sendur út í netstreymi 30. desember kl. 12 og hægt að skrá sig á kynningarfundinn hér

Mikill áhugi var á hraðlinum þegar hann fór fyrst fram snemma á þessu ári og komust færri konur að en vildu. Því hefur verið ákveðið að fjölga þátttakendum og munu fulltrúar allt að 50 viðskiptahugmynda verða teknar inn.

Markmið hraðalsins er að styðja konur í að þróa áfram viðskiptahugmyndir sínar og fyrirtæki og auka hlut þeirra innan frumkvöðla- og nýsköpunargeirans. Aldrei hefur verið mikilvægara en nú að fjölga sprotum og efla nýsköpun í íslensku efnahagslífi og að sama skapi auka hlut kvenna á þeim vettvangi. Markmið hraðalsins er einnig að bjóða upp á fræðslu og efla tengslanet kvenna. 

Hraðallinn er haldinn í samvinnu við Bandaríska sendiráðið en AWE-verkefnið er í boði í yfir 50 löndum víða um heim á vegum bandarískra stjórnvalda. Ísland er fyrst norrænu ríkjanna til að taka þátt í verkefninu.

Nýsköpunarhraðallinn samanstendur af netnámskeiðinu Dreambuilder á vegum Thunderbird School of Management við Ríkisháskólann í Arizona og vinnulotum sem Háskóli Íslands heldur utan um. Ein staðlota verður jafnframt haldin á Akureyri í samvinnu við Háskólann á Akureyri. Að skipulagningu hraðalsins koma einnig Félag kvenna í atvinnulífinu (FKA) og Samtök kvenna af erlendum uppruna (W.O.M.E.N).  

Verðlaun eru veitt fyrir bestu viðskiptahugmyndina bæði í einstaklings- og teymisflokki: 

1. sæti – 500.000 kr.  

2. sæti – 300.000 kr.   

3. sæti – 200.000 kr.  

Einnig eru veitt verðlaun fyrir “pitch” keppni að upphæð 200.000 kr. 

Tuttugu og fimm konur voru í hópi fyrstu þátttakenda í hraðlinum fyrr á þessu ári og hafa í framhaldinu haslað sér völl bæði hér heima og erlendis með frekari þróun og fjármögnun viðskiptahugmynda sinna.  

Lögð er rík áhersla á að konur alls staðar af landinu og með fjölbreyttan bakgrunn og uppruna taki þátt. Fyrirkomulag hraðalsins er því með þeim hætti að flestar vinnulotur eru í streymi. Þátttakendur verða hluti af náms- og þekkingarsamfélagi þar sem þeir njóta handleiðslu reyndra kvenna í nýsköpun og frumkvöðlastarfsemi við uppbyggingu fyrirtækja, mynda ný tengsl og efla starfsþróun og starfshæfni.

Nánari upplýsingar um hraðalinn, fyrirkomulag og tímalínu ásamt slóð á umsóknareyðublað er að finna á vefsíðu AWE.

""