Ásgrímur Angantýsson nýr ritstjóri Netlu
„Starfið leggst mjög vel í mig. Ég tek við góðu búi af fráfarandi ritstjórum; það eru margir sem sækjast eftir því að birta greinar í Netlu og lesendahópurinn er breiður,“ segir Ásgrímur Angantýsson lektor í íslensku við Menntavísindasvið Háskóla Íslands en hann tók nýverið við starfi ritstjóra íslensks efnis í Netlu. Róbert Berman verður áfram ritstjóri fræðilegs efnis á ensku. Tímaritið er gefið út rafrænt og birtir greinar og annað efni jafnóðum og það liggur fyrir.
Netla – Veftímarit um uppeldi og menntun var stofnað við Kennaraháskóla Íslands árið 2002. Tímaritið er bæði ætlað fræðimönnum á sviði uppeldis og menntunar og skólafólki almennt. Í samræmi við það eru birtar fræðilegar greinar á íslensku og ensku og líka frásagnir af þróunarstarfi, umræðugreinar, hugleiðingar, pistlar, viðtöl og ritfregnir og ritdómar um uppeldis- og menntamál. Ritstjórn hefur verið í höndum akademískra starfsmanna Menntavísindasviðs auk fulltrúa frá Þroskaþjálfafélagi Íslands og Kennarasambandi Íslands.
Alls hafa tæplega 400 ritrýndar og ritstýrðar greinar verið birtar í tímaritinu frá upphafi, að meðtöldu efni í sérritum Netlu. Aðspurður hvort efnistök ritsins hafi breyst mikið frá stofnun þess segir Ásgrímur að aðrir séu betur til þess fallnir að rekja sögulega þróun tímaritsins. „En ég held að það sé óhætt að segja að þunginn hafi færst meira yfir á fræðilegt, ritrýnt efni á undanförnum árum. Engu að síður finnst mér mikilvægt að Netla höfði áfram til breiðs hóps lesenda og ég mun beita mér fyrir því.“
Lesendur Netlu mega eiga von á breytingum á útliti og vefviðmóti á næstunni. „Ritstjórnin verður líka fjölmennari og tekur mið af því að tímaritinu berast sífellt fleiri handrit að greinum til ritrýningar,“ segir Ásgrímur að endingu. Þess ber að geta að öllum er heimilt að senda efni tengt uppeldi og menntun í ritið og er það tekið til athugunar hjá ritstjórn.
Menntavísindasvið þakkar fráfarandi ritstjórum, Þuríði Jóhannsdóttur dósent, og Torfa Hjartarsyni lektor, vel unnin störf og óskar þeim velfarnaðar.