Skip to main content
13. september 2017

Alþjóðlegur hópur menntunarfræðinema frá tuttugu löndum

Á annan tug nemenda hóf grunnnám í alþjóðlegu námi í menntunarfræði við Menntavísindasvið nú í haust en sérstök móttaka var haldin þeim til heiðurs í síðustu viku við Háskóla Íslands. Tekið er inn í námið annað hvert ár og stunda alls um 50 nemendur námið á grunn- og framhaldsstigi frá tuttugu löndum víðs vegar um heiminn.

„Með náminu erum við í raun að bregðast við þróun fjölmenningarsamfélags og hnattvæðingu og opnar það nýjar leiðir fyrir nemendur sem hafa áhuga á alþjóðlegri sýn á viðfangsefni uppeldis- og menntunarfræði eða á að vinna með vaxandi hópi innflytjendabarna og tvítyngdra barna á Íslandi,“ segir Brynja Elísabeth Halldórsdóttir, lektor við Menntavísindasvið og umsjónarmaður námsleiðarinnar, en nemendur geta valið um tvær áherslur í náminu; tungumálakennslu eða menntun í alþjóðlegu samhengi.

„Námið er þverfræðilegt og tekur mið af mörgum faggreinum. Við skoðum t.d. menntun og nám með tilliti til hnattvæðingar, sjálfbærni, lýðræðis og mannréttinda. Nemendur taka námskeið í félagsfræði, heimspeki, sálfræði, þjóðfræði, viðskiptafræði, stjórnmálafræði, ensku og tungumálakennslu. Þar sem námið býður upp á fjölda valeininga fá nemendur tækifæri til að sækja námskeið sem þeim hugnast. Við nýtum einnig mikið reynslu og þekkingu nemenda sem gerir það að verkum að við erum sífellt að læra eitthvað nýtt og sjá mismunandi hliðar á viðfangsefnum sem snúa að menntun og námi.“

Brynja segir nemendur afar ánægða með námið og margir sæki um í meistara- og jafnvel doktorsnám í framhaldinu. „Að námi loknu hafa nemendur fengist við fjölbreytt störf. Margir vinna í skólum á Íslandi, bæði leik- og grunnskólum, aðrir starfa hjá alþjóðlegum stofnunum eða halda til síns heimalands að vinna við alls kyns störf í menntakerfum.“

Að sögn Brynju var stofnað til námsins árið 2008 í þeim tilgangi að veita erlendum nemendum, sem eru búsettir hér á landi, tækifæri til að stunda háskólanám á ensku. „Aðsókn í námið, bæði á grunn- og framhaldsstigi, hefur verið mjög góð. Námið er einstakt að því leyti að þetta er eina grunnnámið á Íslandi í alþjóðlegri menntunarfræði og afar fáar námsleiðir á grunnstigi eru kenndar á ensku. Annað sem ég tel að hafi haft áhrif á aðsóknina er að til að stunda nám við Háskóla Íslands þarf ekki að greiða skólagjöld heldur skrásetningargjöld.“

Þess má geta að Háskólinn býður upp á talsvert framboð námskeiða á ensku í framhaldsnámi og telur Brynja að framboðið muni koma til með að aukast með aukinni alþjóðavæðingu.

Nánari upplýsingar um námið

Nemendur