Afburðanemendur í Lagadeild verðlaunaðir
Vorbrautskráning Háskóla Íslands fór fram við hátíðlega athöfn 20. júní sl. Frá Lagadeild brautskráðist 51 nemandi með meistarapróf í lögfræði (mag.jur.) og 67 nemendur luku BA-prófi í lögfræði. Þá voru útskrifaðir þrír nemendur með LL.M. meistarapróf í auðlindarétti og alþjóðlegum umhverfisrétti og einn nemandi útskrifaðist frá deildinni með meistarapróf í skattarétti og reikningsskilum, sem er þverfaglegt nám í samvinnu við Viðskiptafræðideild.
Að venju bauð Lagadeild til árlegrar móttöku fyrir nemendur brautskráða á námsárinu 2014-2015 og var hún haldin á Háskólatorgi. Veittar voru viðurkenningar fyrir frábæran námsárangur.
Hollvinafélag Lagadeildar, Logos og bókaútgáfan Codex verðlauna afburðanemendur
Eyvindur G. Gunnarsson, forseti Lagadeildar, ávarpaði boðsgesti. LOGOS lögmannsþjónusta veitti Kötlu Lovísu Gunnarsdóttur 250 þúsund kr. viðurkenningu fyrir hæstu einkunn á meistaraprófi námsárið 2014-2015, og afhenti Helga Melkorka Óttarsdóttir hrl. henni viðurkenninguna.
Viðurkenningu frá Hollvinafélagi Lagadeildar fyrir hæstu einkunn á BA-prófi námsárið 2014-2015 hlaut Hildur Hjörvar. Verðlaunin námu 150 þúsund kr. Fyrir hönd Hollvinafélagsins afhenti verðlaunin Ragnar Tómas Árnason hrl., formaður Hollvinafélagsins.
Bókaútgáfan Codex veitti að venju viðurkenningu þeim nýnema sem stóðst öll námskeið fyrsta árs í fyrstu tilraun með hæstu meðaleinkunn. Að þessu sinni var Hersir Aron Ólafsson með hæstu einkunn og fékk hann að gjöf allar námsbækur 2. og 3. árs í lögfræði sem gefnar eru út af Codex auk nokkurra valinna rita. Pétur Örn Pálmarsson stjórnarmaður í bókaútgáfunni Codex afhenti viðurkenninguna.
Viðurkenning fyrir bestu meistararitgerðina
Lögmenn Lækjargötu ehf. veittu viðurkenningu að upphæð 250 þús. kr. til þess nemanda sem skilaði bestu lokaritgerð til meistaraprófs í lögfræði á undangengnu almanaksári. Þær ritgerðir koma til greina sem hafa fengið einkunnina 9,0 eða hærri. Þriggja manna dómnefnd sem var skipuð tveimur fulltrúum Lagadeildar og einum fulltrúa frá Lögmönnum Lækjargötu ehf. mat þær 12 ritgerðir sem komu til greina. Dómnefndin valdi meistararitgerð Odds Þorra Viðarssonar, sem bar heitið „Lagarökfræði. Kenningar um lögfræðilega röksemdafærslu með hliðsjón af dómaframkvæmd“. Leiðbeinendur hans voru Hafsteinn Þór Hauksson lektor og Róbert H. Haraldsson prófessor.
Matsnefndina skipuðu að þessu sinni Ingvi Hrafn Óskarsson f.h. Lögmanna Lækjargötu og Eyvindur G.Gunnarsson og Arnaldur Hjartarson f.h. Lagadeildar HÍ.
Ný viðurkenning vegna hæstu einkunnar á BA-prófi.
Þeir Páll Hreinsson, dómari við EFTA-dómstólinn, og Róbert R. Spanó, dómari við Mannréttindadómstól Evrópu, tóku höndum saman og veittu viðurkenningu til þess nemanda sem lauk BA-prófi með hæstu einkunn. Verðlaunin felast í því að verðlaunaþega er boðið að heimsækja dómstólana báða og kynna sér starfsemi þeirra og fær hann greiddar ferðir og uppihald. Eins og áður sagði var Hildur Hjörvar með hæstu einkunn á BA-prófi á námsárinu og hlaut hún framangreind verðlaun.