Aðgerðir til að fjölga kennurum
Launað starfsnám, námsstyrkur til nemenda og styrkir til starfandi kennara til náms í starfstengdri leiðsögn eru meðal aðgerða sem Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, kynnti í gær en þær eiga að taka á kennaraskorti í landinu.
Í fréttatilkynningu mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að frá og með næsta hausti bjóðist nemendum á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi launað starfsnám. Markmiðið með þeirri aðgerð er að hvetja nemendur til þess að klára nám sitt á tilsettum tíma og að þeir hefji störf sem fyrst að námi loknu. Starfsnámið skal vera í minnst 50% starfshlutfalli við leik- eða grunnskóla í eitt skólaár og fá nemendur greitt samkvæmt kjarasamningum Félags leikskólakennara og Félags grunnskólakennara.
Nemendur á lokaári meistaranáms til kennsluréttinda á leik- og grunnskólastigi geta sótt um námsstyrk frá og með næsta hausti. Markmið styrksins er að auðvelda nemendum að sinna lokaverkefnum sínum samhliða launuðu starfsnámi og skapa hvata til þess að nemendur klári nám sitt á tilsettum tíma. Styrkurinn nemur alls 800.000 krónum og greiðist í tvennu lagi. Fyrri greiðslan verður bundin við skil áætlunar lokaverkefnis og sú seinni við skil á samþykktu lokaverkefni innan skilgreinds tíma.
Í tilkynningunni segir einnig að mikilvægt sé að fjölga kennurum í íslenskum skólum sem hafi þekkingu á móttöku nýliða í kennslu. Slíkir leiðsagnakennarar skipti lykilmáli við að sporna gegn brotthvarfi nýútskrifaðra kennara úr starfi en mest sé hættan á brotthvarfi úr kennslu fyrstu þrjú árin. Í þessu skyni mun mennta- og menningarmálaráðuneyti því styrkja Háskóla Íslands og Háskólann á Akureyri. Forsendur þessa styrks verða annars vegar þær að skólastjórnendur styðji umsókn kennara í námið og hins vegar að tryggja þurfi jafna dreifingu þessara styrkja milli skóla og landshluta í því augnamiði að sem flestir skólar landsins hafi kennara innan sinna raða með sérhæfingu í starfstengdri leiðsögn.
Víðtækt samráð
Tillögurnar að aðgerðunum voru unnar í samráði við Samband íslenskra sveitarfélaga, Kennarasamband Íslands, Háskólann á Akureyri, Menntavísindasvið Háskóla Íslands, Listaháskóla Íslands, Heimili og skóla og Samtök iðnaðarins. Að auki komu að vinnunni fulltrúar fjármála- og efnahagsráðuneytis og samgöngu- og sveitarstjórnarráðuneytis.