Á þriðja hundrað rannsóknir kynntar á Menntakviku
Nú styttist óðum í árlega ráðstefnu Menntavísindasviðs Háskóla Íslands Menntakvika: Rannsóknir, nýbreytni og þróun sem haldin verður í tuttugasta sinn við Háskóla Íslands þann 7. október nk. Ráðstefnunni er ætlað að miðla því sem efst er á baugi í menntavísindum og tengdum sviðum.
Hátt í 260 erindi í 62 málstofum verða flutt á ráðstefnunni sem snerta öll fræðasvið menntavísinda. Viðfangsefnin eru afar fjölbreytt og má þar nefna borgaralega þátttöku ungs fólks, heilsuhegðun, líkamsímyndir, málefni framhaldsskóla, menntun ungra barna, skóla án aðgreiningar, skólamáltíðir og margt fleira. Í ár verður lögð sérstök áhersla á heildstæðar málstofur frá rannsóknarstofum eða –hópum en einnig verða þverfræðilegar málstofur.
Þátttakendur Menntakviku hafa aldrei verið fleiri. Þessi mikli áhugi endurspeglar þá grósku sem ríkir í menntavísindum hér á landi um þessar mundir.
Allir eru velkomnir og aðgangur er ókeypis.
Takið daginn frá og fjölmennið.