348 nemendur þreyta inntökupróf í Læknadeild
Mikill áhugi er á að þreyta inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands. 348 nemendur hafa skráð sig í prófið sem er svipaður fjöldi og undanfarin ár. Inntökuprófið fer fram 7. og 8. júní næstkomandi.
Alls munu 284 manns þreyta inntökupróf í læknisfræði og 64 inntökupróf í sjúkraþjálfun. Sama próf er lagt fyrir alla þátttakendur og þeir sem standa sig best á prófinu fá að skrá sig í námið. Í læknisfræði eru nú teknir inn 50 nemendur en þeir hafa verið 48 undanfarin ár. Í sjúkraþjálfun eru teknir inn 35 nemendur. Fjöldinn miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda.
Læknadeild Háskóla Íslands stendur fyrir prófinu og verður prófað í húsnæði Menntaskólans við Hamrahlíð. Skráningu í prófið lauk 20. maí síðastliðinn og höfðu skráðir þátttakendur frest til 30. maí til að greiða próftökugjald sem hljóðar upp á 20 þúsund krónur.
Inntökuprófið tekur tvo daga og samanstendur af fjórum tveggja tíma próflotum og Aðgangsprófi fyrir háskólastig (A-prófi) sem tekur 3,5 klst. A-prófið gildir 30% af inntökuprófinu.
Þess má geta að þeir sem fara í prófið en komast ekki inn í Læknadeild geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands fram til 20. júlí.