343 þreyta inntökupróf í Læknadeild og Tannlæknadeild
Alls hafa 302 manns skráð sig í árlegt inntökupróf í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði við Læknadeild Háskóla Íslands sem fram fer 8. og 9. júní á háskólasvæðinu. Umsækjendur um nám í tannlæknisfræði þreyta nú í fyrsta sinn inntökuprófið en þar sækjast 41 eftir inngöngu. Samanlagður fjöldi sem þreytir inntökuprófið er því 343.
Samtals taka 238 inntökupróf í læknisfræði og 64 í sjúkraþjálfunarfræði. Fjöldi þeirra sem veitt er innganga í læknisfræði og sjúkraþjálfun miðast við afkastagetu sjúkrahúsanna við verklega þjálfun nemenda. Í læknisfræði verða teknir inn 60 nemendur og 35 nemendur í sjúkraþjálfunarfræði.
Í framhaldi af samþykkt háskólaráðs fyrr á þessu ári þreyta nú umsækjendur um nám í tannlæknisfræði í fyrsta sinn sama inntökupróf og þau sem sækja um nám í læknisfræði og sjúkraþjálfunarfræði. Allt að 40 nemendum verður boðið að hefja nám í tannlæknisfræði í haust. Í desember fara svo fram samkeppnispróf eins og áður og 8 nemendum verður boðið að hefja nám á vorönn.
Inntökuprófið fer fram í nokkrum byggingum Háskólans og þreyta allir þátttakendur prófið í prófakerfinu Inspera og geta ýmist nýtt eigin tölvur eða tölvur sem Háskóli Íslands lánar þeim til próftöku. Þetta er í annað sinn sem slíkt fyrirkomulag er viðhaft. Inntökuprófið tekur tvo daga líkt og áður og í því eru sex tveggja tíma próflotur.
Þess má geta að þau sem fara í prófið en fá ekki inngöngu geta skráð sig í aðrar deildir Háskóla Íslands eftir að niðurstöður hafa verið birtar.