Vestur-íslensk arfleifð: Séra Bragi og framsýni Stephans G

Veröld - Hús Vigdísar
Heimasvæði tungumála, 2. hæð
Hrannar Bragi Eyjólfsson og Viðar Hreinsson fjalla um bækurnar Séra Bragi og Vesturheimur og Öld hugsjóna eða öld ofbeldis. Um Stephan G. Stephansson, stríð og frið. Viðburðurinn er haldinn á vegum Vigdísarstofnunar og ÞFÍ í Veröld, fimmtudaginn 27. nóvember kl. 16:30-18:30. Léttar veitingar verða í boði. Verið öll velkomin.
Séra Bragi og Vesturheimur. Séra Bragi Friðriksson var fyrstur íslenskra presta til að vígjast til prestþjónustu meðal Vestur-Íslendinga í Kanada, þar sem hann þjónaði á árunum 1953-1956. Hann var forseti Þjóðræknisfélags Íslendinga frá 1974-1980 og sat í stjórnskipaðri nefnd á vegum utanríkisráðuneytisins um samskipti milli Íslendinga og Vestur-Íslendinga frá stofnun nefndarinnar 1974 til ársins 1997. Séra Bragi var fyrsti heiðursborgari Garðabæjar, frumkvöðull og brautryðjandi í æskulýðs-, félags- og skólamálum og var einn áhrifamesti prestur þjóðkirkjunnar á 20. öld. Hrannar Bragi Eyjólfsson kynnir, selur og áritar bók sína Séra Bragi, sem fjallar ítarlega um ævi og störf séra Braga Friðrikssonar.
Öld hugsjóna eða öld ofbeldis. Um Stephan G. Stephansson, stríð og frið. Um aldamótin 1900 sá Stephan G. Stephansson lengra inn í framtíðina en flestir aðrir og lýsti því í merkilegum bréfkafla um öld ofbeldis sem hann sá renna upp. Hann hafði þá þegar ort merkileg kvæði um það sem kalla má vítahring ofbeldis sem birtist í stóru og smáu. Sá vítahringur virðist felast í aftengingu hugsunar og athafna, sem er snar þáttur í hugsun heimspekingsins Hönnu Arendt löngu síðar. Í þessu spjalli teygir Viðar Hreinsson, höfundur verðlaunabóka um skáldið, nokkra þræði úr hugsun Stephans fram í ástand heimsins í dag.
Hrannar Bragi Eyjólfsson og Viðar Hreinsson fjalla um bækurnar Séra Bragi og Vesturheimur og Öld hugsjóna eða öld ofbeldis. Um Stephan G. Stephansson, stríð og frið.
